Viðskipti innlent

Ó­mögu­legt sé fyrir fólk á Eflingarlaunum að komast á húsnæðismarkað

Lovísa Arnardóttir skrifar
Sólveig Anna segir Eflingarfólk fagna uppbyggingu fjögur þúsnd íbúða í Úlfarsárdal en það leysi ekki vanda þeirra í dag. Það verði að bregðast við í dag.
Sólveig Anna segir Eflingarfólk fagna uppbyggingu fjögur þúsnd íbúða í Úlfarsárdal en það leysi ekki vanda þeirra í dag. Það verði að bregðast við í dag. Vísir/Einar

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segja mikilvægt að bregðast við erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði. Sólveig Anna kallar eftir leigubremsu og Sigurður segir ríkisstjórnina verða að kynna sín úrræði fljótlega vegna dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu.

Sigurður og Sólveig Anna voru til viðtals í Bítinu á Bylgjunni í morgun um stöðuna í efnahagsmálum og á húsnæðismarkaði.

Sólveig Anna segir tilveruskilyrði Eflingarfólks yfirleitt ekki góð, hvorki í góðæri eða á erfiðari tímum. Hún segir að frá árinu 2018 hafi Eflingarfólk viðstöðulaust bent á þetta við takmarkaðar undirtektir. Í skýrslum Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins, um stöðu fólks sé Eflingarfólk yfirleitt á botninum.

„Það er ekki vegna þess að við höfum ekki lagt nógu hart að okkur að berjast fyrir betri kjörum heldur vegna þess að húnsæðismaðurinn, fyrst og fremst, er orðinn mikill ógæfuþáttur í lífi Eflingarfólks,“ segir Sólveig Anna og að samhliða hárri vaxtastefnu Seðlabankans og þröngum lánaskilyrðum hafi staðan snarversnað hjá Eflingarfólki.

„Það er eiginlega bara ómögulegt fyrir manneskju á Eflingarlaunum að komast inn á húsnæðimarkaðinn,“ segir hún og að það þýði að þau séu föst á leigumarkaði og þannig fari mjög hátt hlutfall ráðstöfunartekna þeirra í vasa þriðja aðila. Þetta þýði líka að fólk geti ekki lagt fyrir og um hver mánaðamót minnki líkurnar í raun á að þetta breytist.

Áður helmingur í eigin húsnæði en nú aðeins fjórðungur

Sólveig Anna segir frá því að þegar hún tók við sem formaður árið 2018 hafi Varða framkvæmt könnun meðal félagsfólks og niðurstaðan hafi þá verið að um helmingur hafi verið í eigin húsnæði og helmingur á leigumarkaði. Nú sé staðan sú að aðeins 26 prósent Eflingarfélaga eru í eigin húsnæði. Helsta ástæðan sé fjölgun aðflutts fólks meðal félaga Eflingar en um 60 prósent félagsfólks Eflingar eru innflytjendur. Hún segir stóran hluta þeirra hafa verið hér lengi eða ætla sér að vera hér áfram en séu samt sem áður í þeirri stöðu að komast ekki af leigumarkaði og í eigið húsnæði.

Þá segir hún Bjarg húsnæðisfélag vegna lóðaskorts ekki hafa getað byggt nægilega vel. Fólk sé mjög ánægt þar og fólk upplifi stöðugleika og geti, vegna lágrar leigu, mögulega í fyrsta sinn lagt fyrir. Sólveig Anna segir það verulegt vandamál að Bjarg geti aðeins tekið við mjög takmörkuðum hóp.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir ríkisstjórnina verða að kynna sín úrræði vegna vaxtamálsins. Vísir/Egill

Sigurður segir húsnæðismálin flókin því margir aðilar komi að þeim. Sveitarfélögin séu með lóðirnar, ríkið setji lögin og byggingarmarkaðurinn sjái um uppbyggingu að mestu leyti. Hann segir vanta meiri samhæfingu og að ríkið skorti úrræði til að tryggja samhæfingu. Sveitarfélögin telji sig standa sig vel í lóðaframboði og uppbyggingu en samanlagt sé það sem þau bjóða ekki nægilegt til að mæta eftirspurn.

Sigurður segir líka krísu í mörgum Evrópulöndum og þetta sé sérstakt áherslumál þar líka. Hann segir skrítið að á Íslandi sé lóðaskortur og nefnir í því samhengi skrítnar áherslur eins og atvinnuhúsnæði á jarðhæð.

Ríkið fái inngrip í skipulagsmál

Hann segir ýmislegt hægt að gera eins og að færa skipulagsvald til ríkis, að ríki aðstoði sveitarfélög við innviðauppbyggingu, veiti hagkvæma fjármögnun eða ríkið hafi heimild til inngripa í skipulagsmál.

Sólveig Anna segir nauðsynlega þurfa aðgerðir. Hún segist fagna uppbyggingu fjögur þúsund íbúða í Úlfarsárdal en að það muni taka langan tíma. Á meðan þessi uppbygging fer fram sé nauðsynlegt að bregðast við stöðunni eins og hún er núna. Eflingarfólk vinni margt mjög mikið og sé harðduglegt og leggi mikið á sig til að ná endum saman en það dugi ekki til.

Hún segir að það verði að setja á einhvers konar leigubremsu sem þýði að það verði komið í veg fyrir að það verði sjálfkrafa leiguhækkanir og að leigusalar hafi of mikið sjálfstæði. Hún segir þetta þekkjast víða og sérstaklega í borgum þar sem skyndilega hröð fjölgun hafi verið á leigumarkaði. Hún segir þurfa að herða mjög á AirBnb-leigu í þessu samhengi.

Sólveig Anna segir að við þessar aðstæður hafi Eflingarfólk enga aðra kosti en að vera í mjög harðri stéttabaráttu.

Sigurður segir stóra vandamálið að það vanti íbúðir. Það sé nóg til af landi og það þurfi að endurskoða vaxtamörk sveitarfélaganna því fólksfjölgun hafi verið miklu hraðari en áætlað hafði verið. Sigurður segir furðulegt að þetta hafi ekki verið endurskoðað.

Verði að taka á AirBnb leigu og setja leigubremsu

Sólveig Anna segist fagna öllum hugmyndum um að hagsmunaaðilar komi saman til að finna lausnir en hún sé ekki bjartsýn að slíkt geti gerst. Það virðist ekki mega setja eignastétt og fjárfesta hörð mörk um hvað þau megi kaupa upp af húsnæði eða hvað þau megi setja í skammtímaleigu fyrir ferðamenn.

„Íbúðir sem ættu að vera í umferð fyrir venjulegt vinnandi fólk til að komast inn í,“ segir Sólveig Anna.

Hún segir auk þess erfitt fyrir fólk í hagsmunabaráttu fyrir verka- og láglaunafólk að setjast niður með öðrum félögum í verkalýðsbaráttum, eins og háskólafólki, sem hafa það sem sitt helsta keppikefli að breikka bilið á milli láglaunafólks og hærra launaðra fólks enn meira en nú er. Það sama eigi við um félög karlastétta innan Alþýðusambandsins. Sólveig Anna segir því erfitt að vita um hverja þau eiga að ræða við og hvernig það samtal eigi að vera. Hún segir ekki hægt að horfa fram hjá stöðu verkalýðsfólks og verði ekkert gert hafi það langtímaáhrif og á margar kynslóðir.

„Ég held að mjög margir líti á verðbólguna og þetta háa vaxtastig sem tímabundin vandamál og fólk færir sig á milli lána og svoleiðis, og dregur úr neyslunni sem var mjög mikil, en sér svo alltaf fyrir sér að þetta lagist,“ segir Sólveig og að hún telji erfitt að fólk í Eflingu að setjast niður með fólki í þessari stöðu. Það sé mikill stéttamunur á launafólki.

Hún segir að ef það er vilji hjá betur settu fólki til að líta niður og sjá hvernig staðan er hjá þeim segir hún að það sé hans mat að það sé pólitískt, siðferðisleg skylda allra að vera að lyfta þeim sem verst hafa það.

„Ég vona að við getum átt slíkt samtal, en ég er ekki vongóð.“

Sigurður segir að í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu sé allt frosið á markaði og íbúðakeðjur í uppnámi. Hann segir skrítið að það sé ekki komin útfærð lausn á þessum vanda. Ríkisstjórnin hafi tilkynnt í síðustu viku að það væri von á lausn en hún sé ekki enn komin.

„Hver dagur telur mjög þungt,“ segir hann og að það eigi ekki að vera á borði dómstóla að leysa þetta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×