Innlent

Mið­flokkurinn nálgast Sjálf­stæðis­flokkinn óð­fluga

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Forrusta flokksins á landsþinginu síðasta október.
Forrusta flokksins á landsþinginu síðasta október. Vísir/Lýður Valberg

Miðflokkurinn heldur áfram að bæta við sig fylgi samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup en þar mælist flokkurinn með 16,3 prósenta fylgi. Hann mælist einungis með um einu prósentustigi minna fylgi heldur en Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist með 17,6 prósent fylgi.

Ríkisútvarpið greinir frá þessu en fylgisaukningin er í samræmi við niðurstöður könnunar Maskínu sem fréttastofa greindi frá fyrir um tveimur vikum. Þar jók flokkurinn einnig fylgi sitt um fimm prósent, fór úr níu prósentum í fjórtán. Sagðist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins við tilefnið vera himinlifandi með fylgið.

Flokkurinn hélt flokksþing 11. til 12. október síðastliðinn og varð Snorri Másson varaformaður flokksins. Flokkurinn hefur ekki mælst með meira fylgi frá því í kosningum síðasta haust þar sem hann fékk 12,1 prósenta fylgi.

Píratar mælast inni

Samfylkingin mælist sem fyrr stærsti flokkurinn í þjóðarpúlsi Gallup með 31,9 prósenta fylgi en tapar tveimur prósentustigum milli mánaða. Sjálfstæðisflokkurinn mælist næst stærstur með 17,6 prósenta fylgi eins og áður segir en mældist með 19,5 prósenta fylgi í síðasta mánuði.

Viðreisn mælist með 13,5 prósenta fylgi og bætir við sig einu prósentustigi milli mánaða. Flokkur fólksins mælist nú með 5,9 prósenta fylgi, einu prósentustigi minna en síðast. Framsókn mælist með 5,5 prósent fylgi sem er svipað og í síðasta mánuði.

Píratar eru með 3,9 prósenta fylgi og fengu við núverandi kjördæmakerfi einn kjördæmakjörinn þingmann í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem fylgi flokksins er 7,2 prósent. 2,6 prósent myndu kjósa Vinstri græn og 2,3 prósent Sósíalista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×