Erlent

Trump sagður hafa þrýst á Selenskí að gefa eftir land

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fundurinn í Hvíta húsinu á föstudaginn er sagður hafa verið erfiður og hvorugur aðili gengið sáttur frá borði.
Fundurinn í Hvíta húsinu á föstudaginn er sagður hafa verið erfiður og hvorugur aðili gengið sáttur frá borði. Getty/Andrew Harnik

Donald Trump Bandaríkjaforseti þrýsti á Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta að gefa eftir land til þess að ná fram friði í Úkraínu, á fundi þeirra í Hvíta húsinu á föstudaginn.

Þetta hefur Reuters eftir heimildarmönnum en sendinefndin úkraínska er sögð hafa orðið fyrir vonbrigðum með fundinn.

Selenskí hafði vonast til þess að sannfæra Trump um að selja Úkraínumönnum Tomahawk stýriflaugar, sem þeir hugðust nota til að gera árásir á skotmörk í Rússlandi. 

Bandaríkjamenn höfðu gefið í skyn að þeir væru mögulega á þeim skónum en hafa síðan dregið í land.

Erlendir miðlar hafa greint frá því að einu sinni sem oftar hafi Trump breytt um stefnu eftir að hafa átt samtal við Vladimir Pútín Rússlandsforseta en þeir ræddu saman á fimmtudag.

Eftir það samtal sagði Trump um Tomahawk flaugarnar að Bandaríkjamenn mættu ekki við því að missa þær frá sér.

Reuters segir fund Trump og Selenskí hafa verið erfiðan og að fyrrnefndi hafi blótað nokkuð og þrýst á Selenskí um að gefa eftir kröfum Rússa. Heimildarmenn miðilsins segjast hafa upplifað að Pútín hafi tekist að hafa áhrif á Trump hvað þetta varðar en Rússlandsforseti hafi stungið upp á því að Úkraína gæfi eftir Donetsk og Luhansk gegn því að Rússar færu frá Zaporizhzhia og Kherson.

Eftir fund sinn með Selenskí hvatti Trump opinberlega til þess að aðilar gerðu vopnahlé og festu framlínuna eins og hún væri, í bili. Trump er sagður hafa komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri fýsilegasta niðurstaðan, eftir að Selenskí neitaði að gefa eftir land.

Þess bera að geta að Trump neitaði því í gær að hafa þrýst á Selenskí að gefa eftir allt Donbas svæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×