Innlent

Fella niður vörugjöld á vistvæna bíla en hækka á aðra

Kjartan Kjartansson skrifar
Vörugjald á nýja rafbíla eins og Teslur fellur niður nái tillaga fjármálaráðherra fram að ganga.
Vörugjald á nýja rafbíla eins og Teslur fellur niður nái tillaga fjármálaráðherra fram að ganga. Vísir/EPA

Fjármálaráðherra leggur til að vörugjald á nýjum bílum sem ganga fyrir hreinni íslenskri orku verði fellt niður á næsta ári. Niðurfellingin nær þá til raf-, metan- og vetnisbíla. Samhliða á að hækka vörugjald sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti.

Tillaga ráðherrans tengist breytingum á ýmsum lögum vegna fjárlaga næsta árs. Markmið breytinganna er sagt að skapa varanlega hvata til að velja ökutæki sem nota hreina innlenda orkugjafa í stað þeirra sem ganga fyrir innfluttri orku.

Fyrir bifreiðar sem ganga að öllu leyti eða að hluta fyrir jarðefnaeldsneyti og báru áður þrettán prósent vörugjald hækkar það upp í tuttugu prósent samkvæmt tillögu fjármálaráðherra. Í þessum flokki eru einkum vinnuvélar og ökutæki til sérhæfðra nota, að því er segir í tilkynningu ráðuneytis hans.

Vörugjald af ökutækjum sem bera nú þrjátíu prósent gjald á að hækka í fjörutíu prósent. Þar undir eru minni hópferðabifreiðar, bifhjól og fjórhjól.

Á sama tíma er ætlunin að herða losunarviðmið útblástur ökutækja sem losa koltvísýring.

Breytingarnar á vörugjaldi á bifreiðar eiga að skila ríkissjóði 7,5 milljarða króna í auknar tekjur á næsta ári. Náist markmiði þeirra um að vistvænni ökutækjum fjölgi á kostðan jarðefnaeldsneytisökutækja ættu tekjurnar að lækka á næstu árum.

Töluvert hringl hefur verið með ívilnanir til rafbílakaupa á Íslandi undanfarin ár. Þeir voru til nokkurra ára undanþegnir virðisaukaskatti en sú undanþága var felld niður í fyrra. Þá voru í staðinn veittir beinir styrkir til rafbílakaupa sem kaupendur þurftu að sækja um í Orkusjóð.

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×