Erlent

Finna mikla ná­lykt frá rústunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þrjú lík fundust í morgun en 55 er enn saknað. Litlar líkur eru taldar á að fleiri muni finnast á lífi.
Þrjú lík fundust í morgun en 55 er enn saknað. Litlar líkur eru taldar á að fleiri muni finnast á lífi. AP/Achmad Ibrahim

Björgunarsveitarmenn eru byrjaðir að nota þungavélar í leit að nemendum í rústum skóla sem hrundi í Indónesíu fyrr í vikunni. Talið er hæpið að einhverjir muni finnast á lífi í skólanum en þrjú lík fundust þar í morgun.

Skólinn hrundi á mánudaginn og höfðu björgunarsveitarmenn forðast þungavélar af ótta við frekara hrun á þá sem eru fastir í rústunum.

Átta eru látnir og rúmlega hundrað sagðir slasaðir. Opinber fjöldi þeirra sem saknað er hefur verið á töluverðu reiki og stendur nú í 55. Að mestu er um að ræða drengi og unga menn frá tólf til nítján ára gamla.

Umræddur skóli er íslamskur heimavistarskóli og segja yfirvöld í Indónesíu að verið hafi verið að bæta tveimur hæðum við húsið, sem var tvær hæðir fyrir. Forsvarsmenn skólans höfðu ekki fengið leyfi framkvæmdunum og var verið að hella steypu í mót ofan á húsinu þegar það hrundi. Talið er að byggingin hafi ekki þolað þungann en flestir nemendur og kennarar voru við bænir í sérstökum sal í húsinu.

AP fréttaveitan segir að tvö líkanna sem fundust í morgun hafi fundist í þessum sal og eitt til viðbótar hafi fundist nærri útgangi hússins, eins og sá hafi verið að reyna að flýja út þegar húsið hrundi ofan á hann.

Fréttaveitan segir töluvert heitt í Indónesíu um þessar mundir og á meðan björgunarsveitarmenn vinni í því að brjóta sér leið í gegnum steyptar plötur beri mikla nálykt frá rústunum, sem sé til marks um hvað þeir muni að öllum líkindum finna undir rústunum.

Talið er að björgunarstörfum muni ljúka á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×