Innlent

Mikil­vægt að sýna Græn­lendingum stuðning

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er utanríkisráðherra. Vísir/Ívar Fannar

Utanríkisráðherra fundar um helgina með kollegum sínum á Norðurlöndunum á Grænlandi. Hún segir mikilvægt að Ísland sýni Grænlendingum að við styðjum þá í að taka eigin ákvarðanir.

Síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti tók við í byrjun árs hefur hann reglulega haft orð á því að hann girnist Grænland. Bandaríkjamenn með tengsl við Trump eru grunaðir um að stunda njósnir og áróðursherferðir á þessari stærstu eyju heims og talið er að Trump vilji grafa undan sambandi Grænlands og Danmerkur.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra er stödd í Grænlandi þessa dagana þar sem hún fundar með grænlenska kollega sínum og utanríkisráðherrum annarra Norðurlanda. Hún segir mikilvægt að sýna Grænlendingum að Ísland styðji þá og þeirra ákvarðanir um sína eigin framtíð.

„Við Íslendingar getum komið með ýmislegt að og við getum líka lært af Grænlendingum. Ég vona að þetta leiði allt saman til þess að tengsl milli Grænlands, Íslands og fleiri landa styrkist enn frekar á þessum tímum þar sem órói í heiminum er allt of mikill,“ segir Þorgerður. 

Meðal þess sem Þorgerður mun ræða við kollega sína eru kaup Dana á loftvarnarkerfi fyrir yfir ellefu hundruð milljarða króna.

„Ég er að tala um samstarf ríkjanna en frekar þegar kemur að öryggi og vörnum. Það er eitthvað sem er sífellt í gangi. Öll tækifæri sem gefast, við notum þau í að styrkja tengsl landa við Ísland og það hvernig við getum eflt okkar öryggi og varnir. Það þarf ýmis tæki og tól til þess,“ segir Þorgerður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×