Innlent

Reikna með fimm­tán milljarða halla á næsta ári

Árni Sæberg skrifar
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra.
Daði Már Kristófersson er fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Anton Brink

Reiknað er með fimmtán milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári í fjárlögum fyrir árið 2026. Áður hafði verið gert ráð fyrir miklum mun meiri halla, upp á 26 milljarða króna.

Þetta kom fram í upphafi kynningar Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í ráðuneytinu í morgun. Kynninguna má sjá fréttinni hér að neðan:

Daði Már sagði að helsta áhersla fjárlaganna væri að ná niður vöxtum. Ríkissjóður verði að aðstoða Seðlabanka Íslands við að ná verðbólgumarkmiði með hagræðingu og því myndi hann kynna aðhaldssöm fjárlög. Hagræðing væri þegar farin að bera ávöxt, enda væri nú gert ráð fyrir fimmtán milljarða króna halla á næsta ári í stað 26 milljarða króna halla.

Vaxtalækkun stóra hagsmunamál heimila og fyrirtækja

Hann sagði að hlutdeild ríkissins væri að minnka sem hluti af heildarhagkerfinu. Rekstrarútgjöld ríkisins ættu  ekki að hækka sem hlutfall af landsframleiðslu heldur lækka.

Þessi fjárlög sagði Daði eiga að stuðla að lækkun vaxta sem heimili og fyrirtæki muni njóta góðs af.

„Þetta er stóra hagsmunamál bæði heimila og fyrirtækja í landinu og þess vegna stóra áherslumál ríkisstjórnarinnar,“ sagði Daði.

Senda komandi kynslóðum ekki reikninginn

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, þar sem fjárlagafrumvarpið er kynnt, segir að í frumvarpinu sé forgangsraðað í þágu verðmætasköpunar, nauðsynlegrar innviðafjárfestingar, heilbrigðis og öryggis. Stór þáttur í þeirri vegferð sé hagræðing í rekstri ríkisins en samkvæmt fjárlagfrumvarpinu muni sértækar umbætur og hagræðing nema um þrettán milljörðum króna.

„Forgangsmál ríkisstjórnarinnar er að ná stjórn á fjármálum ríkisins, greiða niður skuldir og binda enda á hallarekstur ríkissjóðs árið 2027. Þessi ríkisstjórn mun ekki eyða um efni fram en hún mun heldur ekki halda mikilvægum kerfum í fjársvelti. Það krefst ábyrgðar og hagsýni en við munum standa vörð um lífsgæði almennings án þess að senda komandi kynslóðum reikninginn,“ er haft eftir Daða Má.

Útgjöld ekki aukin umfram verðmætasköpunarvöxt

Þá segir að með innleiðingu svokallaðrar stöðugleikareglu hafi varanlegar skorður verið settar við ósjálfbærum útgjaldavexti. Á grundvelli hennar verði útgjöld ekki lengur aukin umfram vöxt verðmætasköpunar og komið hafi verið í veg fyrir að tímabundnum tekjum ríkisins sé eytt í varanleg útgjöld. 

Útgjaldavöxtur undanfarinna ára hafi valdið sveiflum og ýtt undir verðbólgu. Tekjur ríkissjóðs séu á hinn bóginn svipað miklar og síðast þegar ríkissjóður var rekinn með afgangi. Þess vegna sé einkum lögð áhersla á að ná stjórn á ríkisútgjöldum, svo sem með hagræðingu, einföldun og aukinni skilvirkni, en gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs haldist stöðugar. 

„Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til umbóta og hagræðingar eru þegar farnar að skila sér en afkoma ríkissjóðs samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er 11 milljörðum króna betri en lagt var upp með í fjármálaáætlun.“

Skuldir ríkisins séu umtalsvert hærri en í nágrannaríkjum okkar og vaxtakostnaðurinn hafi bitnað á mikilvægum verkefnum á borð við uppbyggingu vega, raforkukerfisins og annarra innviða. Að greiða þær niður snúist um almannahagsmuni enda sé vaxtakostnaðurinn hærri en framlög til margra mikilvægra málaflokka.

Stjórnarráðið

Sjúkrahúsið á Akureyri, aukið fé í framhaldsskóla og stuðningur við verðbólgumarkmið

Loks segir að með tiltekt í ríkisfjármálunum hafi þegar skapast svigrúm til þess að mæta þeim brýnustu áskorunum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Nýjum útgjöldum í fjárlagafrumvarpinu sé forgangsraðað til verkefna sem stuðla að öryggi fólks, svo sem í heilbrigðiskerfinu, í samgöngum og víðar.

Á árinu 2026 verði þremur milljörðum króna varið í uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri og yfir 100 nýjum hjúkrunarrýmum verði komið á fót víðs vegar um landið. Þá sé fjármunum varið í stækkun réttar- og öryggisdeildarinnar á Kleppi um helming, fjölgun ýmissa meðferðarúrræða vegna fíknivanda og varanlega styrkingu geðþjónustu barna og aldraðra. Til að stuðla enn frekar að auknu öryggi sé fjármagni veitt í fimmtíu ný stöðugildi innan lögreglunnar, eflingu Landhelgisgæslunnar og á sviði fangelsismála. Ný öryggisvistun fyrir einstaklinga sem ekki eru sakhæfir verði sett á fót, snjóflóðavarnir efldar og brottfararmiðstöð opnuð.

Ríkisstjórnin hafi einnig fjármagnað aðgerðir til stuðnings barnafjölskyldum, meðal annars með hækkun framlaga til Fæðingarorlofssjóðs, uppbyggingu verknáms, auknu fé til framhaldsskólanna og eflingu sérhæfðrar þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Þá hafi ríkisstjórnin sett aukinn kraft í að bæta lífsgæði þeirra sem mest þurfa á stuðningi að halda, þar með talið með hækkun á almennu frítekjumarki ellilífeyrisþega, hækkun á aldursviðbót til örorkulífeyrisþega og hærri framlögum til að koma til móts við fjölgun endurhæfingarlífeyrisþega.

Sterk efnahagsstjórn skili sér þó fyrst og fremst í bættum hag heimila með því að styðja við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands og skapa þannig svigrúm fyrir lækkun vaxta. Frá því í október 2024 hafi  vaxtakostnaður þegar lækkað um ríflega 500 þúsund krónur á ári af þrjátíu milljóna króna jafngreiðsluláni.

„Aðhald í ríkisrekstrinum, umbætur og hagræðing eru viðvarandi verkefni. Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 slær tóninn fyrir það sem koma skal. Það felur í sér varfærni og ekki af ástæðulausu. Tilgangur fjárlaganna er, þegar öllu er á botninn hvolft, að tryggja öryggi og öfluga þjónustu við borgarana. Markmiðið um að skila afgangi gengur ekki í berhögg við þetta heldur er það sett fram til að tryggja að ríkið geti stuðlað að bættum lífskjörum almennings án þess að senda reikninginn til kynslóða framtíðar.“

Fréttin hefur uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×