Erlent

Að minnsta kosti fjórtánhundrað látnir í Afgan­istan

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna telja að raunverulegur fjöldi látinna sé mun hærri en 1.400 og jafnvel margfalt hærri.
Starfsmenn Sameinuðu þjóðanna telja að raunverulegur fjöldi látinna sé mun hærri en 1.400 og jafnvel margfalt hærri. AP/Wahidullah Kaka

Talsmaður Talibana í Afganistan segir að búið sé að staðfesta að fjöldi látinna vegna kröftugs jarðskjálfta sem varð á sunnudaginn sé kominn yfir 1.400. Búist er við því að fjöldinn muni hækka enn frekar en rúmlega þrjú þúsund eru sagðir slasaðir.

Fólk var sofandi þegar skjálftinn skall á. Húsin í þeim héruðum Austur-Afganistan þar sem skjálftinn á sér upptök eru að miklu leyti smíðuð úr leir og timbri og hrundu í mörgum tilfellum ofan á sofandi fólk.

Heilu þorpin eru sögð hafa hrunið og er enn talið að fjöldi fólks sitji fast í rústum. AP fréttaveitan hefur eftir starfsmanni Sameinuðu þjóðanna að fjöldi látinna sé líklega mun hærri, og möguleg margfalt hærri, en búið sé að staðfesta.

Björgunarstarf hefur víða gengið verulega hægt en viðbragðssveitum hefur gengið ill að ná til margra afskekktra byggða um urðu illa úti í skjálftanum, sem var sex að stærð. Honum fylgdu svo nokkrir öflugir skjálftar.

Heilu þorpin eru sögð hafa hrunið í jarðskjálftanum.AP/Wahidullah Kakar

Leiðtogar Talibana, sem eru eingöngu viðurkenndir af yfirvöldum í Rússlandi, hafa kallað eftir aðstoð frá Alþjóðasamfélaginu og hafa Sameinuðu þjóðirnar ítrekað það ákall. Í samtali við AP segir sérstakur starfsmaður SÞ gagnvart Afganistan að ekki megi gleyma íbúum landsins. Þeir glími nú við margskonar krísur.

Sjá einnig: Talíbanar óska eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins

Þetta er þriðji stóri og mannskæði jarðskjálftinn sem skekur landið frá því Talibanar tóku þar aftur völd árið 2021. Hagkerfi ríkisins er mjög veikburða og verulega hefur verið dregið úr neyðaraðstoð til landsins á undanförnum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×