Erlent

Maður talinn af eftir jarðfall

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Skriðan varð á níunda tímanum í morgun að norskum tíma.
Skriðan varð á níunda tímanum í morgun að norskum tíma. Ole Martin Wold

Einn maður er talinn af eftir að jarðfall klippti sundur E6-brautina við Nesvatnið í Lifangri í Noregi. Brautin hrundi um níuleytið í morgun og jarðvegurinn barst ofan í vatnið. Gert er ráð fyrir því að brautin verði lokuð dögum saman.

Annar maður ók eftir veginum þegar jarðvegurinn hrundi undan honum og hann barst með skriðunni ofan í vatnið. Hann kom sér úr bílnum af sjálfsdáðum og var bjargað í land. Hann var fluttur á sjúkrahúsið í Lifangri til aðhlynningar.

Lifangur er bær í Þrændalögum norðaustur af Þrándheimi. Jarðfallið tók með sér kafla úr E6-brautinni ásamt brautarteina Nordlandsbanen. Umfangsmikil leit að hinum saknaða hefur staðið yfir frá því í morgun en talið er að hann sé látinn. Ekkert bendi til þess að nokkur annar hafi borist með skriðunni.

Jarðfallið klippti brautina í sundur.Ole Martin Wold

Maðurinn sem talinn er látinn er danskur og var að vinna við brautarteinana þegar skriðan tók hann með sér út í vatnið.

Rýma þurfti þrjú hús vegna hættu og enn er talin skriðuhætta og því verður óheimilt að dvelja á svæðinu. VG hefur eftir prófessor í jarðtækni að svæðið þar sem hrunið varð sé mjög óstöðugt og að jaðvegurinn á svæðinu sé líklega svokallaður kvikleir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×