Innlent

Þyrla kölluð úr og ríf­lega hundrað björgunar­sveitar­menn: Leita að týndum tólf ára dreng við Ölfusborgir

Agnar Már Másson skrifar
Leitin hefur enn ekki borið árangur. Lögregla hefur nú birt mynd af drengnum á Facebook.
Leitin hefur enn ekki borið árangur. Lögregla hefur nú birt mynd af drengnum á Facebook. Samsett Mynd

Um 150 björgunarsveitarmenn leita tólf ára pilts sem týndist í Ölfusborgum síðdegis í dag. Drengurinn er erlendur ferðamaður og því ekki kunnugur staðháttum.

Greint var frá því fyrr í kvöld að viðbragðsaðilar leituðu drengs sem týndist í Ölfusborgum eða nágrenni milli Hveragerðis og Selfoss. Leit stendur enn yfir.

Að sögn lögreglu sást drengurinn hafi síðast um klukkan 16 í Ölfusborgum. Þegar foreldrar hans hafi haft samband við lögreglu um klukkan 17 hafi þau þegar leitað hans í um einn og hálfan tíma.

Á annan hundrað björgunarsveitarmanna eru á vettvangi.Landsbjörg

Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að björgunarsveitum á Suðurlandi frá Hveragerði að Þjórsá og björgunarsveitum á Höfuðborgarsvæðinu hafi mætt á vettvang.  Nú upp úr klukkan 22 hafi björgunarsveitir af Suðurnesjum boðaðar út til aðstoðar við leitina.

Drengurinn er með sítt, dökkt hár sem bundið var í hnút, að sögn lögreglu, og klæddist hann svartri hettupeysu, svörtum buxum og skóm með camo mynstri. Lögregla biður þá sem telja sig hafa upplýsingar um drenginn að láta lögreglu vita í síma 112.

Björgunarsveitarmenn á vettvangi við Ölfusborgir.Landsbjörg

Garðar Már Garðarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi sagði fyrr í kvöld að leitarhundar hefðu verið ræstir út. Auk þess hafa lögreglumenn frá höfuðborgarsvæðinu komið til að aðstoða.

Bjögunarsveitir leita m.a. með drónum með hitamyndavélum og hefur þyrla Landhelgisgæslunnar jafnframt verið boðuð til leitar úr lofti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×