Skoðun

Rang­færslur ESB-sinna leið­réttar

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Gamalkunnar rangfærslur ESB-sinna um að við tökum upp um 80% af reglum Evrópusambandsins eru enn á ný komnar á kreik. Varaformaður Evrópuhreyfingarinnar hélt þessu fram í Sprengisandi á dögunum og nú hefur Benedikt Jóhannesson, einn guðfeðra Viðreisnar, lagt sitt af mörkum. Svo virðist sem hann og margir aðrir Evrópusambandssinnar hafi verið blekktir en ekki vil ég ætla honum að vera upphafsmaður blekkinganna. Afleiðingarnar birtast í fjölföldun blekkinga. Hver hinn upprunalegi blekkingameistari er skal ég ekki fullyrða, en óneitanlega grunar marga hver hann er.

Blekkingarnar eru margvíslegar, svo sem þær að vextir og verðbólga séu þau sömu í öllum evrulöndunum, svo fátt eitt sé nefnt.

Í færslu á Facebook bendir Benedikt á að ég hafi birt myndir af stöðu Íslands innan ESB sem fengnar eru úr skýrslu utanríkisráðuneytisins frá 2019. Til að auðvelda lesturinn númera ég rangfærslur, villur og jafnvel útúrsnúninga Benedikts til að svara þeim. Og leyfi myndunum auðvitað að fylgja með.

1. „Meirihluti kafla löggjafar EES-samningsins er að mestu eða öllu leyti innan löggjafar Evrópusambandsins”

Svona lítur þetta út – pakkinn hefur alltaf verið opinn og öllum aðgengilegur. Sannarlega er margt innan ESB hluti EES-samstarfsins, enda snýst það um sameiginlegan markað ESB og EES/EFTA-ríkjanna, en mergurinn málsins er auðvitað að fjölmargt stendur þar fyrir utan. Það sem fellur innan EES-samningsins er ekki rök fyrir því að ganga í ESB, heldur þvert á móti.

2. „Ísland innleiðir, sem EES ríki, megnið af þeim gerðum sem snerta innri markað Evrópusambandsins..“

Benedikt er ekki hrifinn af hinni myndinni sem ég birti úr skýrslu utanríkisráðuneytisins sem öllum er aðgengileg á vef þess. Hvað veit Benedikt betur en það?

Þessi mynd sýnir, svart á hvítu, hlutfallið sem tökum upp í EES-samninginn af heildarfjölda samþykktra ESB-gerða. Þessi mynd sýnir tölur til ársins 2016. Hlutfallið sveiflast milli ára en meðaltalið er 13,4% frá 1994 til 2016.

Með því að kasta fram tölum á borð við 80% (jafnvel 86%!) og láta eins og hér gildi þetta hlutfall af öllu regluverki ESB er blekking í því skyni að villa um fyrir almenningi í von um að hann velti ekki fyrir sér hver sé munurinn á EES og ESB – hversu stórt hlutfall við tökum hér upp af öllu ESB-farganinu. Niðurstaðan, 13,4% fyrir ofangreint tímabil, er eins lág og raun ber vitni þar sem meirihluti þeirra reglna sem ESB setur varða málefni utan EES (m.a. landbúnaðarstefnuna, sjávarútveginn og tollamál ESB).

3. ..við erum sem slík í þeirri stöðu að þurfa að taka upp reglur sem við höfum ekki komið að því að búa til.”

Innan ESB er regluverkið að stórum hluta innleitt í aðildarlöndunum án nokkurrar aðkomu þjóðþinga viðkomandi landa. Um ákvarðanir sem innleiddar eru hér gilda aðrar reglur og þar gerist ekkert sjálfkrafa heldur að lokinni athugun á ýmsum stigum. Auk þess hafa fulltrúar okkar afskiptarétt af málum á mótunarstigi þeirra.

4. Íslendingar „fá þó ekki að sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar” og „erum .. í þeirri stöðu að þurfa að taka upp reglur sem við höfum ekki komið að því að búa til”

Eins og að ofan greinir á þessi gamla skrítla ekki við nein rök að styðjast. Fulltrúar Íslands koma að undirbúningi og innleiðingu ESB/EES-regla á margvíslegan hátt eins og rakið hefur verið víða og öllum áhugamönnum um þessi mál ætti að vera ljóst. Ég bendi hins vegar á þessa þætti í stjórnkerfi ESB:

- Vægi ESB-landa markast aðallega af íbúafjölda. Það á m.a. við um ráðherraráð ESB sem er gjarnan talin valdamesta stofnun þess. Vægi Íslands yrði því um 0,08% miðað við íbúafjölda.

- Í Evrópuþinginu er ekki alfarið miðað við íbúafjölda og vægi Íslands yrði um 0,8% eða sex þingmenn af rúmlega 700 Evrópuþingmönnum.

Þetta er þetta margrómaða „sæti við borðið” sem ESB-sinnar sækjast eftir þegar stórþjóðirnar ákveða reglurnar.

ESB-sinnar klifa á því að þjóðin eigi að ráða. Þá er lágmarkskrafa að staðreyndir séu bornar á borð.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Tjáningar­frelsi

Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Sjá meira


×