Innlent

Stálu mynda­vélum fyrir þrjár milljónir: „Grunar að þessu hafi verið stolið eftir pöntun“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tuttugu sekúndur liðu frá því að mennirnir komu inn í verslunina þar til þeir yfirgáfu hana. 
Tuttugu sekúndur liðu frá því að mennirnir komu inn í verslunina þar til þeir yfirgáfu hana.  Facebook

Tveir karlmenn gengu galvaskir inn í verslunina Ljósmyndavörur í Skipholti, brutu glerskáp og stálu myndavélabúnaði fyrir þrjár milljónir síðdegis í dag. Eigandi segir ljóst að verknaðurinn hafi verið vel skipulagður. 

„Við erum bara fegin að það hafi ekki verið neinn inni í búðinni, því yfirleitt er búðin full af fólki. Mæður með ung börn og svona,“ segir Bergur Gíslason eigandi Ljósmyndavara í samtali við fréttastofu.

Hann lýsir atburðarásinni þannig að á tuttugu sekúndum hafi maður vopnaður verkfærum og annar maður vopnaður handslökkvitæki gengið inn í verslunina, brotið glerskáp, tekið valda hluti úr skápnum og gengið út aftur. 

„Þeir vissu alveg hvað þeir ætluðu að taka. Mann grunar að þessu hafi verið stolið eftir pöntun. Það var ekkert hik, það var ekkert eitthvað: Bíddu á ég að taka þetta, á ég að taka þetta?“ segir Bergur.

Blessunarlega séu græjurnar tryggðar og þjófarnir hafi ekki ógnað starfsfólkinu. 

„Líf starfsfólksins og kúnnanna er meira virði en eitthvað dót sem er hægt að panta aftur.“

Bergur segir málið hafa verið tilkynnt til lögreglu sem rannsaki málið.

Myndband af þjófnaðinum má sjá hér að neðan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×