Fótbolti

Evrópudeildarleikur Blika í beinni á Sýn Sport

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tobias Thomsen verður í eldlínunni með Blikum í Bosníu á morgun.
Tobias Thomsen verður í eldlínunni með Blikum í Bosníu á morgun. vísir / diego

Breiðablik mætir bosníska liðinu Zrinjski Mostar ytra í forkeppni Evrópudeildarinnar annað kvöld. Leikurinn verður í beinni á Sýn Sport.

Breiðablik féll úr keppni í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir tap fyrir Póllandsmeisturum Lech Poznan í síðustu viku en færðist við það yfir í forkeppni Evrópudeildarinnar. Bosníumeistararnir, Zrinjski Mostar, er andstæðingurinn þar sem Blikar eru að mæta liðinu í annað sinn á þremur árum.

Breiðablik mætti sama liði á sama stað í forkeppni Evrópudeildarinnar fyrir tveimur árum síðan en það ár fór liðið fyrst allra íslenskra liða í riðlakeppni í Evrópu. Blikar töpuðu 6-3 samanlagt fyrir bosníska liðinu en unnu í kjölfarið lið Struga í umspili um sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Blikar eru á ferð og flugi og lentu í Split í Króatíu í gær á leið sinni til Bosníu.

Vinni Blikar einvígið fara þeir í umspil um sæti í deildarkeppni Evrópudeildarinnar og eru þá með bókað sæti í deildarkeppni í Evrópu í vetur.

Leikur Zrinjski Mostar og Breiðabliks er klukkan 18:00 á morgun og verður sýndur beint á Sýn Sport.

Víkingur á einnig leik fyrir höndum á morgun, við lið Bröndby frá Danmörku, í Víkinni. Sá verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland og hefst klukkan 18:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×