Erlent

Eldur í olíugeymslu í Sochi eftir drónaárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Sochi í nótt og í morgun.
Frá Sochi í nótt og í morgun.

Stór eldur kviknaði í olíugeymslu í Sochi í Rússlandi í nótt eftir drónaárás Úkraínumanna. Loka þurfti flugvellinum í borginni, sem liggur við strendur Svartahafs, vegna eldsins og börðust á annað hundrað slökkviliðsmenn gegn honum.

Ríkisstjóri Krasnodar, þar sem Sochi er, sagði á samfélagsmiðlum að eldurinn hefði kviknað eftir að brak úr dróna féll til jarðar. Það segja rússneskir ráðamenn ítrekað eftir árásir Úkraínumanna en myndband af vettvangi sýnir þegar drónum var flogið á olíugeymsluna.

Óljóst er hve margir drónar hæfðu olíugeymsluna en myndbönd gefa til kynna að þeir hafi verið nokkrir.

Rússar segjast samkvæmt frétt BBC hafa skotið niður 93 dróna frá Úkraínu í nótt. Fjórir eru sagðir hafa særst í árásum næturinnar í Rússlandi.

Úkraínumenn gerðu einnig árásir með drónum í Rússlandi í fyrrinótt. Þær eru meðal annars sagðar hafa beinst að drónaframleiðslu í Rússlandi, gasleiðslu og flugvelli.

Þrír á sjúkrahús eftir eldflaugaárás

Rússar gerðu einnig árásir í Úkraínu í nótt og skutu meðal annars eldflaug að Míkólaív í sunnanverðri Úkraínu. Ráðamenn þar segja eldflaugina hafa hæft íbúðarhús. Þrír voru fluttir á sjúkrahús.

Úkraínumenn segja Rússa hafa beitt 76 drónum og sjö eldflaugum í nótt. Að minnsta kosti einni eldflaug var beint að Kænugarði.

Sextíu drónar voru skotnir niður, samkvæmt Úkraínumönnum, og ein eldflaug. Sextán drónar og sex eldflaugar fundu skotmörk sín á átta mismunandi stöðum í Úkraínu.

Fyrr í vikunni gerðu Rússar eina banvænustu árásina hingað til á Kænugarð. Að minnsta kost 31 féll í árásinni, þar á meðal fimm börn, og rúmlega 150 særðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×