Enski boltinn

Newcastle býður í Sesko

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mörg stórlið hafa sýnt Sesko áhuga síðustu misseri en hann hefur alltaf haldið kyrru fyrir hjá RB. 
Mörg stórlið hafa sýnt Sesko áhuga síðustu misseri en hann hefur alltaf haldið kyrru fyrir hjá RB.  Ulrik Pedersen/NurPhoto via Getty Images

Newcastle hefur lagt fram áttatíu milljóna evra tilboð í Benjamin Sesko, framherja RB Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni.

David Ornstein hjá The Athletic greinir frá tilboðinu, sem hljóðar upp á 75 milljónir í staðgreiðslu auk 5 milljóna í mögulegum bónusgreiðslum.

Fyrr hefur verið greint frá því að Newcastle myndi sækja Benjamin Sesko ef Alexander Isak færi frá félaginu.

Newcastle hafnaði fyrsta tilboði Liverpool, sem var lagt fram í gær. Óvíst er hvort Liverpool leggi fram annað tilboð en félagið hefur hótað því að hætta eltingaleiknum við Isak.

Tilboð Newcastle í Sesko gefur hins vegar sterklega í skyn að Alexander Isak sé á förum frá félaginu.

Manchester United er einnig áhugasamt um Sesko, sem er sjálfur sagður óákveðinn um áfangastað. Hann er samningsbundinn RB Leipzig til 2029 en er með heiðursmannasamkomulag við félagið sem leyfir honum að fara fyrir rétt verð.

Arsenal og Chelsea höfðu einnig sýnt Sesko áhuga í sumar, en fundu sér aðra framherja í Viktor Gyökeres annars vegar og Liam Delap og Joao Pedro hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×