Sport

Tón­list og partýstemming á Meistaramóti Ís­lands í tíu þúsund metrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðburðurinn er innblásinn af hinum rómaða breska hlaupaviðburði „Night of the 10.000 m PB’s“ sem haldinn hefur verið árlega á Parliament Hill í London.
Viðburðurinn er innblásinn af hinum rómaða breska hlaupaviðburði „Night of the 10.000 m PB’s“ sem haldinn hefur verið árlega á Parliament Hill í London. Getty/Stephen Pond

Það á að vera skemmtilegt að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og Frjálsíþróttasambandið ætlar að tryggja það að það verði einstaklega skemmtilegt í ár.

Meistaramót Íslands í 10.000 metra hlaupi á braut mun nefnilega fara fram með öðru sniði og með nýstárlegri umgjörð í ár.

Mótið hefur fengið nafnið Kvöldhlaup NIKE og fer fram fimmtudagskvöldið 14. ágúst næstkomandi.

Stefnan er þar sett á að skapa skemmtilega stemningu á ÍR-vellinum.

Viðburðurinn er innblásinn af hinum rómaða breska hlaupaviðburði „Night of the 10.000 m PB’s“ sem haldinn hefur verið árlega á Parliament Hill í London.

Þar hefur 10.000 metra hlaup á braut fengið nýtt líf, þar sem áhorfendur standa nærri brautinni, plötusnúður spilar tónlist og partýstemming ríkir allt kvöldið.

„Með Kvöldhlaupi NIKE viljum við færa þessa hugmynd yfir í íslenskar aðstæður og bjóða upp á skemmtilega upplifun fyrir bæði keppendur og áhorfendur,“ segir í frétt á heimasíðu sambandsins.

Karlarnir ræsa klukkan 19.00 en konurnar klukkan 20.00.

Lágmörkin til að fá að keppa á mótinu eru 42 mínútur hjá körlum en 50 mínútur hjá konum. Hámarksfjöldi eru 25 keppendur í hvorum flokki og aldurstakmark er tólf ára og eldri.

Lágmörkum þarf að hafa verið náð á tímabilinu 1. maí 2024 til 13. ágúst 2025 í FRÍ‑vottuðu 10 km götuhlaupi eða löggildu 10 km hlaupi erlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×