Innlent

Sér­ís­lenskt gervi-Oxy  í mikilli dreifingu

Rafn Ágúst Ragnarsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur, segir þessa lyfjasamsetningu hvergi annars staðar hafa greinst.
Adam Erik Bauer, réttarefnafræðingur, segir þessa lyfjasamsetningu hvergi annars staðar hafa greinst. Vísir/Bjarni

Gervioxycontin, sem samsett er úr sex mismunandi lyfjum, hefur greinst hér á landi en það hefur hvergi fundist annars staðar í heiminum. Mikið magn lyfsins er í dreifingu og aukaverkanirnar geta verið grafalvarlegar.

Lyfjastofnun varaði í gær við fölsuðum töflum sem líkjast mjög 80 milligramma OxyContin töflum, sem hafa verið í dreifingu bæði á Norðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Sýni hafa borist Rannsóknarstofu lyfja- og eiturefnafræða Háskóla Íslands frá skaðaminnkunarúrræðum.

„Við erum að fá ruslið frá þeim, við fáum tóma poka sem við skolum úr til að sjá hvað var í pokanum, dælur utan af sprautum. Þá er þetta fólk sem hefur neytt efnanna í æð að öllum líkindum og þá skolum við innan úr sprautunum og erum að sjá hvað fólk var að taka,“ segir Adam Erik Bauer réttarefnafræðingur hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands.

Vita ekki hver áhrifin eru á líkamann

Lyfin innihalda ekki oxýkódón heldur parasetamól, koffín, kódein, klónazepam, bíperíden og ketórólak. Efnin eru gefin við miklum verkjum, önnur við Parkinsons og enn önnur við flogaveiki.

„Allt eru þetta efni sem eiga ekki að vera í töflum sem líta svona út. Þar sem samsetningin, þessi samsetning er óþekkt - við höfum ekki séð svona samsetningu neins staðar annars staðar í heiminum - og við vitum ekki hvaða áhrif þetta hefur á líkamann að neyta þessara tafla eða reykja enis og sumir gera með ópíóíða, þá töldum við að við þyrftum að vara við þeim.“

Samverkan efnanna er óljós en hætta er á lifrarskemmdum, sljóleika, ranghugmyndum, hjartaáfalli og öndunarstöðvun svo fátt eitt sé nefnt. Nefúðinn naloxón vinnur ekki gegn ofskömmtun á þessum efnum. 

Adam segir ólíklegt að efnin séu framleidd hér á landi. Líklegra sé að eftirlitið hér sé mun betra en annars staðar og samvinna milli sakaðaminnkunarúrræða og rannsóknarstofunnar hjálpi þar jafnframt til.

Mikil eftirspurn eftir OxyContin

Í apríl lagði lögreglan hald á 20 þúsund töflur af efninu nítazene sem litu út eins og 80 milligramma oxycontin töflur. Enn er ekki vitað til þess að þær séu í dreifingu. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru hinar töflurnar, sem líta eins út, í mikilli dreifingu.

Það gefur kannski til kynna að það er mikil eftirspurn eftir OxyContin?

„Já, svo virðist vera. Þetta eru þá þessar sægrænu 80 milligramma töflur sem verið er að líkja eftir.“

Gífurlegur fjöldi af fölsuðum töflum

Svala Jóhannesdóttir formaður skaðaminnkunarsamtakanna Matthildar, segir allt að tíu þúsund töflur af þessari gerð í dreifingu á íslenskum fíkniefnamarkaði. Hún segir að báðar töflurnar sem voru efnagreindar á rannsóknastofu Háskóla Íslands hafi komið frá notendum í færanlegri skaðaminnkunarþjónustu Matthildar, Reyk.

„Það er alltaf áhyggjuefni þegar fölsuð lyf, þar sem fólk veit ekki hvað það er að innbyrða, eru að ná dreifingu. Þess vegna skiptir það svona miklu máli að það sé send út gul viðvörun þannig að upplýsingarnar dreifist sem víðast. Það er mikilvægt að taka fram að gul viðvörun þýðir ekki að þessi tafla sé lífshættuleg. Í rauninni er það þannig að þessi blanda af efnum geti haft hilsufarslegar afleiðingar sérstaklega ef hennar er neytt í miklu magni,“ segir hún.

Svala Jóhannesdóttir er formaður skaðaminnkunarsamtakanna Matthildar.Vísir/Vilhelm

Hver myndirðu giska á að fjöldi þessara taflna sé?

„Við höfum síðustu daga unnið markvisst að því að koma upplýsingum um þessar fölsuðu töflur til notenda en einnig til aðila inni á íslenskum fíkniefnamarkaði sem bera traust til okkar. Þannig að upplýsingarnar berist til réttra aðila með það að markmði að lágmarka áframhaldandi dreifingu á þessari töflu. Við höfum heyrt að það sé til fjöldinn allur af þessari fölsuðu töflu. Við höfum heyrt að það sé allt af tíu þúsund stykki af þessari töflu,“ segir Svala Jóhannesdóttir.

Við þurfum að vera raunsæ

Hun segir jafnframt að það skipti miklu máli að efnin sem eru til sölu á íslenskum vímuefnamarkaði séu reglulega efnagreind svo hægt sé að bregðast skjótt við og bjarga mannslífum.

„Það er risastór vímuefnamarkaður hér á landi rétt eins og í öllum löndum í heiminum. Það er mikil eftirsókn eftir sérstakelega þessari 80 mg OxyContin-töflu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svona tafla greinist hér á landi, það hafa verið nokkrar áður. Það skiptir öllu máli að við vitum hvaða efni eru í umferð hér á landi og getum þá brugðist mun fyrr við þegar hættuleg efni komast inn á markað og farið þá í viðeigandi aðgerðir til að tryggja mannslíf og öryggi fólks,“ segir hún.

„Við þurfum að gera þetta kerfisbundið. Það er ekki nóg að ákveðin skaðaminnkandi úrræði séu að greina öðru hvoru. Við höfum sent fimmtíu sýni upp í efnagreiningu og erum gríðarlega ánægð með þetta samstarf við notendur, að vilja skila af sér. En það þarf að gera þetta meira markvisst. Vissulega er þetta fyrsta skrefið en við vonum að með þessu muni stjórnvöld stíga enn fastar niður og þetta verði meira kerfisbundið og að bæði starfsfólk og notendur hafi aðgang að vímuefnagreiningu,“ segir Svala Jóhannesdóttir formaður skaðaminnkunarsamtakanna Matthildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×