Skoðun

Sann­girni að brenna 230 milljarða króna?

Björn Leví Gunnarsson skrifar

Í nýlegri grein skrifar bæjarstjórin í sveitarfélaginu Ölfus að „ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur [hafi] valdið verðmætarýrnun upp á 230 milljarða“. Máli sínu til stuðnings skoðar bæjarstjórinn breytingar á verðmæti hlutabréfa þriggja félaga á markaði frá 24. mars síðastliðinn til 15. júlí.

Vissulega má draga tengsl þarna á milli en orsakasamhengi er flóknara, en það er rétt að lækkun hlutabréfanna í þessum þremur félögum hefur verið um 19% en á sama tíma hafa önnur fyrirtæki lækkað líka á meðan önnur hafa hækkað. Hlutabréfavísitalan er vissulega lægri núna en hún var í upphafi árs en hún er mun hærri en hún var fyrir kosningar.

Það er ekki auðvelt að rökstyðja mál sitt með gögnum. Sérstaklega flóknum gögnum þar sem margar breytur hafa áhrif. Það virðist vera augljóst að kostnaður þessara fyrirtækja á eftir að aukast með auknum veiðigjöldum - en það sem er mikilvægt að skilja er að það er hliðrun á fjármagni. Það má vel vera að ávöxtun lífeyrissjóða vegna þessara hlutabréfa verði lægri, en á móti hækka iðgjöld og önnur hagkerfisleg áhrif breytinganna.

Fiskurinn mun áfram seljast á nákvæmlega sama verði, óháð skattinum, og þar af leiðandi mun það ekki hafa nein áhrif á hagkerfið í heild sinni, bara hvernig arðurinn af auðlindinni skiptist.

Þessi rök bæjarstjórans eru þess vegna mjög sértæk. Þau horfa bara á afmarkaðan hluta heildarjöfnunnar - þann hluta sem hentar pólitíkinni hans.

Höfundur er fyrrverandi þingmaður og nörd.




Skoðun

Sjá meira


×