Handbolti

Grétar kveður Frakk­land og fer til Grikk­lands

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Grétar Ari hefur staðið í marki franskra liða síðustu fimm ár.
Grétar Ari hefur staðið í marki franskra liða síðustu fimm ár. instagram / @gretarari

Handboltamarkvörðurinn Grétar Ari Guðjónsson hefur gengið frá samningi við AEK í Aþenu, höfuðborg Grikklands og kveður þar með Frakkland eftir fimm ára veru þar í landi.

Grétar hefur spilað með þremur liðum í frönsku úrvalsdeildinni síðustu fimm árin, hann var hjá Nice í tvö ár og Sélestat í tvö ár en síðasta árið hjá US Ivry, sem féll úr deildinni í vor.

Áður en hann flutti út lék hann með uppeldisfélaginu, Haukum, vann Íslandsmeistaratitilinn árin 2015 og 2016 og varð bikarmeistari 2014 og 2019.

Grétar er 29 ára gamall og 192 sentimetrar að hæð. Hann var viðloðinn íslenska landsliðið um tíma en hefur ekki verið valinn í landsliðshóp síðan 2021.

AEK greindi frá félagaskiptunum á miðlum félagsins.

„Maður finnur alltaf fyrir… blöndu af tilfinningum, þegar maður skiptir um lið. Ég er mjög spenntur fyrir áskorununum og tækifærunum sem framundan eru. Ég get ekki beðið eftir að kynnast liðsfélögunum, tengjast aðdáendum og leggja mig allan fram. Málið er einfalt: Ég vil vinna allt sem hægt er að vinna“ sagði Grétar í viðtali sem var birt á heimasíðu félagsins.

AEK varð í öðru sæti í grísku úrvalsdeildinni í vor, annað árið í röð, eftir tap í úrslitaeinvíginu gegn tvíríkjandi meisturum Olympiacos.

Liðið komst alla leið í úrslitaleik Evrópubikarsins en var dæmdur ósigur eftir að leikmenn neituðu að spila úrslitaleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×