Skoðun

Ursula von der Leyen styður þjóðar­morð!

Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Ursulu von der Leyen framkvæmdastjóra Evrópusambandsins er boðið til Íslands meðan þjóðarmorð stendur á Gaza. Hún hefur lýst því yfir að Ísrael fylgi sömu gildum og Evrópa, hún segir frelsi Ísraels vera frelsi Evrópu og hún segir að Ísrael sé að verja sig. Ursula styður þjóðarmorðið.

Ursula von der Leyen styður vopnasendingar til þjóðarmorðshers Ísraels og hún veitir Ísrael pólitískt skjól í krafti stöðu sinnar.

Með afstöðu sinni vinnur Ursula gegn Alþjóðadómstólnum og Alþjóða sakamáladómstólnum sem hafa úrskurðað að Ísrael skuli hætta stríðsaðgerðum og yfirgefa Palestínskt land og ennfremur gefið út handtökuskipan á Netanyahu forsætisráðherra fyrir stríðsglæpi. Ursula styður Netanyahu.

Francesca Albanese, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um hernumin palestínsk svæði, segir að embættismenn ESB á borð við Ursulu von der Leyen og utanríkisráðherrann, Kaja Kallas, séu samsekir í þjóðarmorðinu þar sem stuðningur ESB við Ísrael heldur áfram þrátt fyrir brot þeirra gegn sáttmálanum gegn þjóðarmorði. Francesca Albanese telur að kæra skuli Ursulu og fleiri ESB toppa fyrir aðild að stríðsglæpum vegna stuðnings þeirra við árás Ísraels á Gaza.

Alþjóðlega friðarrannsóknastofnunin í Genf (GIPRI) og samtök franskra lögfræðinga (CJRF) hafa lagt fram kæru hjá Alþjóðlega sakamáladómstólnum gegn Ursulu von der Leyen, fyrir hlutdeild í stríðsglæpum í Gaza og að sinna ekki alþjóðlegum lagalegum skyldum um að koma í veg fyrir þjóðarmorð.

Ísland hefur viðurkennt ríki Palestínu. Palestínumenn eru drepnir í tugþúsunda tali. Ísrael getur haldið þjóðarmorðinu áfram vegna stuðnings Usulu von der Leyen og þeirra afla sem hún er fulltrúi fyrir.

Íslensk stjórnvöld eiga að sjá sóma sinn í því að sniðganga fulltrúa þeirra sem styðja þjóðarmorðið gegn palestínsku þjóðinni.

Höfudur er formaður Félagsins Ísland - Palestína.




Skoðun

Sjá meira


×