Erlent

Öldungur dæmdur fyrir meira en hál­frar aldar gamalt morð

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af Ryland Headley í réttarsal í Bristol í nóvember. Hann er 92 ára gamall en var 34 ára þegar hann er sagður hafa drepið Dunne.
Teikning af Ryland Headley í réttarsal í Bristol í nóvember. Hann er 92 ára gamall en var 34 ára þegar hann er sagður hafa drepið Dunne. AP/Elizabeth Cook/PA

Breskur karlmaður á tíræðisaldri var í gær sakfelldur fyrir að hafa nauðgað og drepið konu árið 1967. Talið er að þetta sé elsta óleysta manndrápsmálið sem hefur nokkru sinni verið leitt til lykta á Bretlandi.

Louisa Dunne, 75 ára gömul kona, var nauðgað og hún svo kyrkt á heimili sínu í júní árið 1967. Morðingi hennar fannst ekki en lögregla varðveitti föt hennar, ýmis lífsýni og lófafar úr glugga.

Þegar málið var tekið upp aftur árið 2023 bendlaði erfðaefnisrannsókn Ryland Headley, sem nú er 92 ára gamall, við glæpinn. Erfðaefni hans var í opinberum gagnagrunni vegna annars máls. Lófafarið var einnig rakið til hans.

Headley var handtekinn á heimili sínu í nóvember. Hann var 34 ára þegar hann er sagður hafa misnotað Dunne og drepið. Hann ar sakfelldur fyrir að nauðga tveimur eldri konum í Ipswich á áttunda áratug síðustu aldar og sat inni í sjö ár vegna þess.

Dómstóll í Bristol á Suðvestur-Englandi sakfelldi Headley fyrir drápið á Dunne í gær. Refsing hans verður ákvörðuð í dag. 

Rannsóknarlögreglumaðurinn sem rannsakaði málið segist nú skoða hvort að Headley kunni að hafa framið fleiri glæpi sem ekki hafa verið upplýstir.

Barnabarn Dunne segist hafa verið furðu lostin þegar Headley var handtekinn.

„Ég sætti mig bara við það að sum morð eru aldrei leyst og að sumt fólk verður bara að lifa með þeim tómleika og sorg,“ sagði Mary Dainton, barnabarn Dunne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×