Handbolti

„Við þurfum hjálp frá Guði“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stefán Arnarson biður um hjálp frá Guði í næsta leik.
Stefán Arnarson biður um hjálp frá Guði í næsta leik. Vísir/Hulda Margrét

Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, segir að liðið þurfi hjálp frá æðri máttarvöldum til að eiga möguleika gegn Val í úrslitaeinvígi Olís-deildar kvenna.

„Við spiluðum fyrri hálfleikinn vel bæði varnar- og sóknarlega. Það var virkilega fínn hálfleikur, en við komum bara illa út og byrjum að klikka á færum. Þá hættum við að spila vörn og við bara hrundum. Liðið var lítið í sér og það þýðir ekkert í úrslitaleik að vera svona lítill. Sérstaklega á móti svona góðu liði eins og Valur er,“ sagði Stefán í leikslok.

Það að Stefán segi að liðið hafi verið lítið í sér á líklega vel við því um tíma virtust Haukar ekki getað skorað. Hafdís Renötudóttir byrjaði seinni hálfleikinn frábærlega í marki Vals og leikmenn Hauka fóru inn í skelina.

„Það geta allir klikkað á skotum, en maður á alltaf að geta staðið vörn. Við vorum líka að leka þar en höfðum spilað vörnina mjög vel í fyrri hálfleik. Það eru vonbrigði að missa leikinn svona fljótt úr höndunum. Þetta var kaflaskiptur leikur, það er ljóst.“

Stefán segist þó taka jákvæða punkta með sér inn í næsta leik. Takist Haukum ekki að vinna þann leik, sem fram fer á mánudaginn, er Valur Íslandsmeistari.

„Fyrri hálfleikur var jákvæður og margir að spila vel þar. Margt gott, en við þurfum að spila vel í 60 mínútur til að vinna Val.“

En hvað þarf að gerast svo Haukar vinni á mánudaginn?

„Ég ætla bara að fá að vitna í körfuboltamennina. Við þurfum hjálp frá Guði,“ sagði Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×