Innlent

Al­var­lega slasaður en ekki í lífs­hættu eftir á­rás í Úlfarsárdal

Jón Þór Stefánsson skrifar
Skjáskot úr myndbandi á vettvangi.
Skjáskot úr myndbandi á vettvangi.

Maður sem var stunginn í Úlfarsárdal í Reykjavík særðist alvarlega og lögreglu hefur ekki tekist að taka skýrslu af honum vegna málsins í dag. Hann er þó ekki talinn í lífshættu.

Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. Hann segir að lögreglan muni krefjast gæsluvarðhalds á hendur grunuðum árásarmanni í dag.

„Þetta er mjög alvarleg atlaga. Þetta var langt eggvopn sem fór í kvið,“ segir Ævar Pálmi.

Lögreglan hefur í dag verið að safna saman gögnum og tekið skýrslur af vitnum. Á meðal þess sem lögreglan rannsakar eru myndbönd sem hún fékk send sem eiga að varpa ljósi á atburðarrásina.

Fréttastofa birti í gær þetta myndband sem er af vettvangi.

Á myndbandinu virðist sjálf árásin hafa verið tekin upp í fjarlægð.

Atvikin sem sjást eiga sér stað utandyra í Úlfarsárdal. Þar má sjá einn mann, sem virðist halda á einhverju sem gæti verið hnífur eða annars konar stunguvopn, hlaupa að tveimur mönnum og veitast að þeim.

Jafnframt sést hann reyna að koma sér undan, en svo virðist sem bílstjóri jepplings hafi reynt að stöðva hann með akstri sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×