Erlent

Suðureyjargöng náðu ekki í gegnum Lögþingið

Kristján Már Unnarsson skrifar
Suðureyjargöng munu liggja milli Sandeyjar og Suðureyjar með mögulegum legg til Skúfeyjar.
Suðureyjargöng munu liggja milli Sandeyjar og Suðureyjar með mögulegum legg til Skúfeyjar. LØGMANSSKRIVSTOVAN

Suðureyjargöng milli Sandeyjar og Suðureyjar, sem yrðu lengstu jarðgöng Færeyja, náðu ekki í gegnum Lögþingið fyrir sumarleyfi þess, eins og að hafði verið stefnt. Þess í stað var málinu í dag vísað til frekari skoðunar í fjárlaganefnd þingsins.

Svo virðist sem ágreiningur um jarðgangalínuna, ekki síst um tengingu ganganna við Sandey og veglínu þar, hafi verið helsti ásteytingarsteinnin. Þá virðist heldur ekki hafa náðst samkomulag um hvort göngin verði tengd Skúfey en þar búa um fjörutíu manns. Efasemdir um fjárhagsgrundvöll þessa risaverkefnis virðast jafnframt undirliggjandi þáttur.

Lögþing Færeyja í Þórshöfn.Mynd/Lögþingið.

Annað stórt þingmál, frumvarp um að hækka eftirlaunaaldur upp í 70 ár, blandaðist einnig inn í jarðgangamálið. Það náði heldur ekki í gegn og var sömuleiðis vísað til nánari skoðunar í fjárlaganefnd. Kringvarp Færeyja hefur eftir fjármálaráðherranum Ruth Vang að Suðureyjargöngin og eftirlaunafrumvarpið muni framvegis hanga saman.

Þessi útfærsla Suðureyjarganga gerir ráð fyrir tvennum göngum um Skúfey, 9 og 17 kílómetra löngum. Með því að fara stystu leið milli Sandeyjar og Suðureyjar án tengingar við Skúfey dygðu 22 kílómetra göng.Grafík/Hjalti Freyr Ragnarsson

Jenis av Rana, fyrrverandi ráðherra og þingmaður Miðflokksins, segir að sú niðurstaða að vísa málinu til fjárlaganefndar, sé aðeins klók aðferð til að hafna göngunum. Þetta sé áfall fyrir Suðureyinga.

Lögmaður Færeyjar, Aksel V. Johannessen, heitir því að jarðgangamálinu sé ekki lokið. Áfram verði unnið að málinu með það að markmiði að Suðureyjargöng verði að veruleika. Samstaða verði hins vegar að ríkja um málið í Lögþinginu.

Stöð 2 fjallaði um göngin síðastliðið sumar:


Tengdar fréttir

Samstaða í Færeyjum um að bjóða út Suðureyjargöng

Fulltrúar allra flokka á Lögþingi Færeyja undirrituðu í dag sameiginlegan sáttmála um Suðureyjargöng með tilheyrandi vegtengingum. Samtímis var kynnt lagafrumvarp, sem allir flokkarnir sex standa á bak við, um stofnun sérstaks félags, P/F Suðuroyartunnilin, um gerð og rekstur ganganna. Þar er gert ráð fyrir ríflegum stofnframlögum úr landssjóði Færeyja upp á samtals fjóra milljarða íslenskra króna næstu tvö ár.

Búa sig undir ákvörðun um stærsta mannvirki Færeyja

Færeyingar búa sig núna undir stærstu ákvörðun færeyskrar mannvirkjagerðar, hvort grafa eigi 26 kílómetra löng neðansjávargöng til Suðureyjar. Þeir stefna að ákvörðun eftir hálft ár og vonast til að framkvæmdir hefjist innan þriggja ára.

Segir samstöðu lykilinn að jarðgangagerð Færeyinga

Algjör samstaða um jarðgangagerð er lykillinn að samgöngubyltingu Færeyja, segir ráðherrann Høgni Hoydal, og segir Hvalfjarðargöngin hafa reynst Færeyingum innblástur. Og það eru ekki Danir sem borga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×