Innlent

Mikil hætta meðan maður reyndi að flýja lög­reglu í mið­bænum

Jón Þór Stefánsson skrifar
Eftirför lögreglu var um miðbæ Reykjavíkur. Myndin er úr safni.
Eftirför lögreglu var um miðbæ Reykjavíkur. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Töluverð hætta skapaðist þegar ökumaður ætlaði að komast undan lögreglu í miðbæ Reykjavíkur síðdegis í gær, að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir að eftirförin hafi hafist um fjögurleytið í gær í kjölfar umferðareftirlits lögreglu, en ökumaðurinn hafi neitað að stöðva bíl sinn. Töluverð hætta hafi skapast vegna háttsemi ökumannsins bæði gagnvart gangandi vegfarendum og öðrum akandi.

Eftiförin hafi þó varað stutt, og ökumaðurinn handtekinn. Hann var látinn laus að skýrslutöku lokinni.

„Eftirförin var stutt og snörp, en skapaðist þó töluverð hætta af því að þetta var hérna á miðborgarsvæðinu þar sem er mikið af fólki og umferð og annað slíkt,“ segir Ásmundur.

Mbl.is greindi frá eftirförinni í gærkvöldi og sagði í frétt miðilsins að hún hefði verið umfangsmikil og endað með handtöku við Klapparstíg. Jafnframt kom fram að á vettvangi hefði mátt sjá hlut sem líktist hnífi.

Ásmundur segir við fréttastofu að hann geti ekki tjáð sig um hnífinn. Rannsókn málsins sé enn skammt á veg komin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×