Íslenski boltinn

Stjarnan og Vestri á­fram eftir fjölda marka og mikla dramatík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Örvar skoraði tvö.
Örvar skoraði tvö. Vísir/Anton Brink

Stjarnan lenti í gríðarlegum vandræðum gegn Lengjudeildarliði Njarðvíkur í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta. Á endanum unnu Garðbæingar 5-3 sigur í framlengingu. 

Vestri lenti í svipuðum vandræðum gegn Lengjudeildarliði HK en heimamenn komust á endanum áfram eftir vítaspyrnukeppni. Bikarmeistarar KA unnu þá öruggan 4-0 sigur á KFA sem leikur í 2. deild.

Stjarnan lenti í gríðarlegum vandræðum gegn Lengjudeildarliði Njarðvíkur í 32-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta. Á endanum unnu Garðbæingar 5-3 sigur í framlengingu. Vestri lenti í svipuðum vandræðum gegn Lengjudeildarliði HK en heimamenn komust á endanum áfram eftir vítaspyrnukeppni.

Omar Diouck kom gestunum frá Njarðvík yfir strax á 2. mínútu í Garðabæ. Emil Atlason svaraði með tveimur mörkum fyrir lok fyrri hálfleik og heimamenn því í góðri stöðu þegar síðari hálfleikur hófst.

Tveir sem voru á skotskónum.vísir/Diego

Valdimar Jóhannsson jafnaði metin fyrir Njarðvíkinga á 64. mínútu og Tómas Bjarki Jónsson kom gestunum yfir þremur mínútum síðar. Það var komið var langt fram yfir venjulegan leiktíma þegar Örvar Eggertsson jafnaði metin og staðan 3-3 þegar flautað var til loka venjulegs leiktíma.

Eðli málsins samkvæmt þurfti að framlengja og þar reyndust heimamenn sterkari. Sindri Þór Ingimarsson kom Stjörnunni snemma yfir. Sigurjón Már Markússon fékk sitt annað gula spjald á 114. mínútu og gestirnir því manni færri það sem eftir lifði leiks. Örvar bætti fimmta marki Stjörnunnar við örskömmu síðar.

Diouck gat minnkað muninn þegar gestirnir fengu vítaspyrnu á 118. mínútu eftir að Kjartan Már Kjartansson var dæmdur brotlegur innan vítateigs og fékk að líta rauða spjaldið í kjölfarið. Aron Dagur Birnuson varði hins vegar spyrnuna og lokatölur 5-3 Stjörnunni í vil.

Vestri komið áfram eftir að henda frá sér 2-0 forystu gegn HK. Eiður Aron Sigurbjörnsson kom Vestra yfir og Kristoffer Grauberg tvöfaldaði forystuna. Dagur Orri Garðarsson minnkaði muninn á Tumi Þorvarðsson jafnaði metin á 57. mínútu.

Daði Berg Jónsson hélt hann hefði tryggt Vestra áfram með marki í lok leiks en Jóhann Þór Arnarsson kom leiknum í framlengingu. Að henni lokinni var staðan enn 3-3 og því þurfti vítaspyrnukeppni. Þar reyndist Vestri betri aðilinn og Vestfirðingar komnir í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Á Akureyri átti 2. deildarlið KFA ekki mikla möguleika gegn bikarmeisturum KA sem leika í Bestu deildinni. Eggert Gunnþór Jónsson, spilandi þjálfari gestanna, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 38. mínútu. Jakob Snær Árnason bætti við öðru marki heimamanna fyrir lok fyrri hálfleiks. 

Dagbjartur Búi Davíðsson kom KA í 3-0 og Marcel Römer, nýjasta viðbót KA, bætti fjórða markinu við undir lok leiks. Akureyringar nokkuð þægilega í 16-liða úrslit bikarkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×