Erlent

Skoða hugsan­lega breytingu á sam­starfs­samningi Norður­landa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Norðurlandaráðsþing var haldið hérlendis á síðasta ári. Myndin er úr safni.
Norðurlandaráðsþing var haldið hérlendis á síðasta ári. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa skipað lagaprófessor til að gera lagalega úttekt á Helsingforssamningnum, samstarfssamning Norðurlandanna. Markmiðið er að skoða lagaleg áhrif sem hugsanleg breyting kynni að hafa. Hugsanlega breytingin varðar aðild Færeyja, Grænlands og Álandseyja að Norðurlandaráðinu.

Á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var hérlendis í október síðastliðnum var samþykkt þingsályktunartillaga um breytingu á Helsingforssamningnum. Breytingin varðar fulla aðild Færeyja, Grænlands og Álandseyja að Norðurlandaráðinu.

Helsingforssamningurinn er lagalegur grunnur norræns samstarfs innan Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs. Hann var fyrst undirritaður árið 1962 og svo endurskoðaður 1996 þegar Svíar og Finnar gengu í Evrópusambandið.

„Þess vegna tilnefndu ríkisstjórnirnar þann 4. apríl Elinu Pirjatanniemi, lagaprófessor við Åbo Akademi, til að vinna úttekt á lagalegum álitaefnum í tengslum við hugsanlega endurskoðun,“ stendur í tilkynningu frá ríkisstjórnum Norðurlandanna.

Markmið með úttektinni er að skoða lagaleg áhrif hugsanlegrar endurskoðunar á samningnum kynnu að vera.

Bæði Færeyingar og Grænlendingar hafa kallað eftir því að fá fulla aðild að ráðinu. Á síðasta ári sögðu Grænlendingar sig úr ráðinu í mótmælaskyni og var enginn fulltrúi þeirra á Norðurlandaráðsþinginu.

„Nú er þolinmæði okkar gagnvart Norðurlandaráði á þrotum. Í hálfa öld höfum við reynt að fá fulla aðild - án árangurs,“ sagði Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, við þingsetningu í Færeyjum síðasta sumar.

Útektinni á að ljúka fyrir árslok 2025 svo hægt verði að leggja fram niðurstöðurnar fyrir norrænu ríkisstjórnirnar í upphafi árs 2026.

„Öllum er ljóst að eins og staðan er í heimsmálunum hefur formlegt norrænt samstarf mikla þýðingu og gildi. Það gleður mig þess vegna mjög að ríkisstjórnirnar hafi ákveðið að hefja þessa lagalegu úttekt svo hægt sé að fá skýra mynd af þeim tækifærum og möguleikum sem til staðar eru,“ er haft eftir Karen Ellemann, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

RÚV greindi fyrst frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×