Ísland mætir Ísrael í tveimur umspilsleikjum um laust sæti á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik sem haldið verður í Þýskalandi og Hollandi í lok árs. Leikirnir fara fram 9. og 10. apríl og verða báðir leiknir hér á landi.
Í tilkynningu sem HSÍ sendi frá sér nú síðdegis er greint frá því að lögreglan hafi ráðlagt sambandinu að leika leikina fyrir luktum dyrum og án þess að þeir verði auglýstir. Þetta sé vegna þeirrar alvarlegu stöðu fyrir botni Miðjarðarhafs og sagt að greiningarsvið ríkislögreglustjóra hafi gert áhættugreiningu vegna leikjanna.
„Stjórn HSÍ hefur ákveðið að fara að þessum ráðum ríkislögreglustjóra enda hefur HSÍ ekki forsendur til að ganga gegn þeirri greiningarvinnu sem unnin hefur verið af embættinu.“
HSÍ segir það mikil vonbrigði að ekki sé hægt að leika þessa leiki með áhorfendum sem séu mikilvægur þáttur í þeim árangri sem náðst hefur. Ísland lék á Evrópumótinu í desember og var það annað stórmótið í röð sem landsliðið komst á eftir að hafa misst af stórmótum í rúman áratug þar á undan.