Neytendur

Gerðu tungumálarassíu hjá reiðhjóla­verslunum

Atli Ísleifsson skrifar
Tilefni ákvarðana Neytendastofu er skoðun sem sem gerð var á netverslunum með reiðhjól í kjölfar ábendingar um að vörulýsingar væri ekki aðgengilegar á íslensku.
Tilefni ákvarðana Neytendastofu er skoðun sem sem gerð var á netverslunum með reiðhjól í kjölfar ábendingar um að vörulýsingar væri ekki aðgengilegar á íslensku. Getty

Neytendastofa hefur slegið á putta sjö verslana sem selja reiðhjól fyrir að hafa ekki birt upplýsingar um vörur á íslenskri tungu í netverslunum sínum. Reiðhjólaverslunin Örninn á yfir höfði sér 25 þúsund króna dagsektir verði ekki gerðar úrbætur á heimasíðunni á næstu dögum.

Þetta kemur fram á vef Neytendastofu. Þar segir að stofnunin hafi tekið ákvarðanir gagnvart Erninum Hjólum, rekstraraðila netverslunarinnar orninn.is, annars vegar og Cintamani, rekstraraðila netverslunarinnar gap.is hins vegar.

„Í ákvörðunum Neytendastofu komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að félögin hafi brotið gegn lögum sem henni er falið eftirlit með því að birta auglýsingar og vörulýsingar reiðhjóla ekki á íslensku.

Tilefni ákvarðananna er skoðun sem Neytendastofa gerði á netverslunum með reiðhjól í kjölfar ábendingar um að vörulýsingar væri ekki aðgengilegar á íslensku. Stofnunin skoðaði vefsíður sjö seljenda reiðhjóla og gerði í upphafi athugasemdir við þá alla. Fimm seljendur gerðu breytingar á vefsíðum sínum í kjölfar athugasemdanna og því kom ekki til þess að teknar væru ákvarðanir gagnvart þeim.

Neytendastofa hefur beint þeim fyrirmælum til Cintamani og Arnarins að birta vörulýsingar og auglýsingar á vefsíðum sínum á íslensku innan tveggja vikna frá dagsetningu ákvörðunarinnar. Verði það ekki gert skulu félögin greiða dagsektir þar til farið hefur verið að ákvörðunum stofnunarinnar.

Eftir birtingu á ákvörðunum Neytendastofu hefur Cintamani gert fullnægjandi breytingar á netverslun sinni,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×