Innlent

Trén fallin

Bjarki Sigurðsson skrifar
Búið er að fella á annað þúsund trjáa.
Búið er að fella á annað þúsund trjáa. Vilhelm

Vonir standa til að austur-vestur flugbraut Reykjavíkurflugvallar verði opnuð á ný í vikunni. Reykjavíkurborg telur sig vera búna að fella þau tré sem nauðsynlegt er að fella. 

Flugbrautin hefur verið lokuð í einn og hálfan mánuð þar sem Samgöngustofa taldi flugöryggi í aðflugi ekki tryggt vegna trjáa í Öskjuhlíðinni sem sköguðu upp í hindrunarflöt. Búið er að fella á annað þúsund trjáa síðustu vikur og nú telur borgin hindrunarflötinn lausan við öll tré.

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir Isavia nú fara yfir mælingagögnin.

„Það er verið að fara yfir gögnin núna en það á eftir að koma í ljós hvort þetta sé alveg búið eða hvort eitthvað þarf að bæta við. En við vonum að þetta gangi fljótt og vel fyrir sig,“ segir Þórhildur.

Þórhildur Elín Elínardóttir er samskiptastjóri Samgöngustofu. Vísir/Arnar

Áttu von á því að þetta rati á ykkar borð í dag?

„Við vonumst itl þess að við vitum það ekki.“

Málið er í forgangi hjá stofnuninni og náist að afgreiða það í dag verður brautin opnuð aftur á miðnætti.

„Það væri ekki mjög ábyrgt af mér að fullyrða hvernig framhaldið verður, en það verður framhald. Það þarf að tryggja að umhverfi flugvallarins sé með þeim hætti að flugöryggi sé tryggt. Það er okkar fyrsta og síðasta vers í þessu máli,“ segir Þórhildur. 

Samvinna málsaðila hefur gengið vel að sögn Þórhildar.

„Það er bara stöðugt samband og allir aðilar hafa komið að borðinu. Að ræða saman og upplýsa um stöðuna. Það hefur gengið mjög vel,“ segir Þórhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×