Það var hátíðarstemming við setningu Búnaðarþings í dag. Forseti Íslands mætti, ráðherrar og alþingismenn og að sjálfsögðu bændur og búalið.
Um tveggja daga Búnaðarþing er að ræða á Hótel Natura í Reykjavík þar sem fjölbreytt málefni landbúnaðarins verða til umræðu. Formaður Bændasamtakanna setti þingið formlega, ásamt því að fara yfir málefni bænda í ræðu sinni. Því næst flutti frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands ávarp þar sem hún koma víð við þegar landbúnaðar eru annars vegar og atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín kom líka víða við í ræðu sinni. Hún fékk einnig það hlutverk að afhenda landbúnaðarverðlaunin 2025 en þau hlutu bændurnir á Brúnastöðum í Fljótum í Skagafirði eða þau Stefanía Hjördís Leifsdóttir og Jóhannes Ríkharðsson.
En hvernig er staða íslenskra bænda í dag?
„Það eru brekkur en það eru líka tækifæri og við erum að einbeita okkur því og ætlum okkur að sækja okkur þessi tækifæri og nýta þau og ég finn að bændur eru tilbúnir í það,” segir Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna.

Og Trausti talaði um geltandi hunda í ræðu sinni við sveitabæi.
„Ég trúi því Magnús Hlynur að við viljum öll hafa líf í sveitunum og partur af því er að það séu geltandi hundar í vegkanti,” sagði Trausti við fréttamann.
Atvinnuvegaráðherra, sem er að fara með formanni Bændasamtakanna í hringferð um landið til að hitta bændur eru bjartsýni á stöðu landbúnaðarins.
„Mér líst vel á stöðuna. Það eru klárlega allskonar áskoranir, sem að bændur og stjórnvöld standa frammi fyrir þegar kemur að þessari mikilvægu atvinnugrein en við vitum það líka að í áskorunum felast líka tækifæri og þetta er sterkur og samheldin hópur, sem er með þetta markmið, sem varðar framtíðina og varðar fæðuöryggi og við munum finna leiðir,” segir Hanna Katrín.

Og einn af hápunktum við setningu Búnaðarþings var að fagna 30 ára afmæli Bændablaðsins, sem kemur út á hálfs mánaðar fresti.

En lokaorðin til bænda og þeirra fjölskyldna frá forseta Íslands voru þessi:
„Þið eruð mikilvægur hlekkur í samfélaginu og þjóðhagslega afar mikilvæg. Ástríðar ykkar á starfinu skiptir máli og hefur bæði bein og óbein áhrif á líf fólks og líðan, sem og öryggi þjóðarinnar. Þið megið vera stolt af þessu ábyrgðarhlutverki,” sagði Halla.
