Erlent

Pútín í Kúrsk: Farið verði með úkraínska her­menn eins og hryðju­verka­menn

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Óalgengt er að Rússlandsforseti klæðist herklæðum í opinberum heimsóknum sínum. Hann er sagður hafa heimsótt stjórnstöð í Kúrsk í kvöld. 
Óalgengt er að Rússlandsforseti klæðist herklæðum í opinberum heimsóknum sínum. Hann er sagður hafa heimsótt stjórnstöð í Kúrsk í kvöld.  EPA

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er staddur í Kúrskhéraði í Rússlandi í fyrsta skipti síðan Úkraínuher réðist skyndilega inn í héraðið í ágúst í fyrra. 

Harðir bardagar hafa átt sér stað frá innrás Úkraínuhers í Kúrsk. Rússar hafa undanfarnar vikur sölsað undir sig landsvæði í héraðinu. BBC hefur eftir Valery Gerasimov yfirhershöfðingja í Rússlandi að Rússar hafi nú endurheimt um 1100 ferkílómetra af landsvæðinu og fangað um 430 úkraínska hermenn á svæðinu. 

Rússnesk yfirvöld segjast meðal annars hafa náð yfirráðum yfir borginni Sudzha í héraðinu, sem úkraínsk yfirvöld segja ekki rétt. 

Fyrr í dag bárust fréttir af því að úkraínskir hermenn væru að hörfa frá yfirráðasvæðinu þeirra í Kúrsk, flestar byggðir sem Úkraínumenn hafi haldið í Kúrsk væru orðnar tómar. 

Pútín hefur enn ekki brugðist við vopnahléstillögu sem Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði Úkraínumenn hafa samþykkt í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá Hvíta húsinu fer Steve Witkoff sendifulltrúi Trump til Moskvu síðar í vikunni til að ræða tillöguna. 

Heimildarmenn Reuters sögðu í dag ólíklegt að Pútín samþykkti vopnahléstillögu að svo stöddu, eins og hún liti út í dag. 

Aftur á móti hefur Pútín farið hörðum orðum um stöðuna í Kursk, þar sem hann er nú staddur klæddur herklæðum, samkvæmt rússneskum miðlum. Hann skipar rússneska hernum að ná fullum yfirráðum yfir héraðinu á ný.

Þá segir hann að farið verði með úkraínska hermenn á svæðinu eins og hryðjuverkamenn, frekar en stríðsfanga, samkvæmt rússneskum lögum. Í frétt Guardian segir að með ummælunum hafi Pútín gefið í skyn að hermennirnir sem Rússlandsher hefur fangað gætu átt yfir höfði sér margra tuga ára langa fangelsisvist í Rússlandi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×