Innlent

Þrjú bana­slys á fjórum dögum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fjögur banaslys hafa orðið í umferðinni á sautján dögum, þar af þrjú á síðustu fjórum dögum. 
Fjögur banaslys hafa orðið í umferðinni á sautján dögum, þar af þrjú á síðustu fjórum dögum.  Vísir/Vilhelm

Þrír hafa látið lífið í umferðarslysum á síðustu fjórum dögum, þar á meðal barn á öðru aldursári. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir aðdraganda banaslyss sem varð í Berufirði í dag enn til rannsóknar.

Fyrsta banaslys ársins í umferðinni varð þann 20. febrúar síðastliðinn þegar ökumaður steypubíls lést í slysi á Þingvallavegi við Álftavatn. Á fimmtudag, tveimur vikum síðar, varð alvarlegt slys við gatnamót Bröttubrekku og þjóðvegar eitt. Þar skullu rúta og jepplingur saman og lést barn á öðru aldursári sem var um borð í jepplingnum. 

Fjögur banaslys hafa orðið á rúmum tveimur og hálfri viku. Vísir/Sara

Í gær varð svo annað alvarlegt slys við Flúðir. Tveir bílar skullu saman og lést þar einn maður, búsettur í Hrunamannahrepp. Upp úr hádegi í dag lentu tveir bílar saman á hringveginum milli Djúpavogs og Breiðdalsvíkur, skammt frá bænum Krossi. Fjórir voru um borð í bílunum. Þrír þeirra voru fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann og sá fjórði var úrskurðaður látinn á vettvangi.

„Það virðist vera að tvö ökutæki koma úr gagnstæðum áttum og rekast saman með þessum afleiðingum. Allt tiltækt lið kallað til frá öllu Austurlandi,“ segir Hjalti Bergmar Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Austurlandi. 

Í öðrum bílnum voru tveir ferðamenn og í hinum tveir Íslendingar. Aðstæður á vettvangi voru góðar, bjart og vegurinn var þurr.

„Vegurinn er enn þá lokaður og verður lokaður fram á kvöld á meðan rannsókn á vettvangi fer fram. Þó að björgunaraðgerðum sé lokið er vettvangsrannsóknin eftir og er í gangi,“ segir Hjalti. 

Fréttastofa hefur engar upplýsingar um hvernig aðdragandi hinna slysanna þriggja var, eða hvernig aðstæður voru á vettvangi. Haraldur Ólafsson veðurfræðingur segir þennan árstíma þó geta verið hættulegan í umferðinni. Ökumenn eigi það til að vanmeta aðstæður í björtu vetrarveðri.

„Það er líka oft launhált á þessum árstíma. Sólbráðin sem oft er á malbiki frýs að næturlagi og svo er bara bráðnun á snjó og klaka og vegum svolítið ójöfn. Stundum eru hálkublettir, til dæmis þar sem sólin nær ekki að skína á veginn,“ segir Haraldur.

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur.Vísir/Lýður

Ökumenn þurfi að fara varlega.

„Það er kannski einmitt við þessar aðstæður sem er mikilvægt að passa sig vel,“ segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×