Enski boltinn

Slot í bann og stýrir Liverpool ekki í kvöld

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arne Slot sagði eitthvað ósæmilegt við Michael Oliver og uppskar rautt spjald. Hann hefur nú verið dæmdur í bann vegna hegðunarinnar eftir leikinn við Everton.
Arne Slot sagði eitthvað ósæmilegt við Michael Oliver og uppskar rautt spjald. Hann hefur nú verið dæmdur í bann vegna hegðunarinnar eftir leikinn við Everton. Getty/Carl Recine

Arne Slot, þjálfari Liverpool á Englandi, hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann vegna framkomu hans eftir jafntefli við Everton í grannaslag á dögunum.

Liðin skildu jöfn á Goodison Park þann 12. febrúar síðastliðinn í síðasta grannaslagnum sem fram fór á þeim velli áður en Everton flytur sig um set á nýjan völl í sumar. Leikurinn var spennuþrunginn og Everton jafnaði metin á 98. mínútu leiksins. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli.

Upp úr sauð í kjölfarið. Curtis Jones, leikmanni Liverpool, og Abdoulaye Doucouré, leikanni Everton, var vísað í sturtu eftir að leik lauk. Doucouré fagnaði þá fyrir framan stuðningsmenn Liverpool og Jones brást ókvæða við.

Slot var þá ósáttur við dóma Michaels Oliver á lokakafla leiksins sem og lengd uppbótartímans sem gaf tækifæri á áðurnefndu jöfnunarmarki. Hollenski þjálfarinn tryggði sér einnig reisupassann með hegðun sinni.

Aganefnd ensku úrvalsdeildarinnar hefur farið yfir málið og dæmdi Slot í tveggja leikja bann vegna hegðunar hans. Hann var sektaður um 70 þúsund pund að auki, sem nemur tæplega 13 milljónum króna.

Sipke Hulshoff, aðstoðarþjálfari Slot, sem fylgdi honum til Liverpool frá Feyenoord í sumar var einnig dæmdur í tveggja leikja bann vegna hans framkomu.

Bannið tekur strax gildi. Slot og Hulshoff verða því ekki á hliðarlínunni er Liverpool mætir Newcastle í kvöld. Johnny Heitinga mun að líkindum stýra liði Liverpool í leiknum þar sem Slot verður uppi í stúku.

Everton var sektað um 65 þúsund pund vegna hegðunar leikmanna liðsins og Liverpool um 50 þúsund pund vegna framkomu leikmanna þeirra rauðklæddu eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×