Skoðun

Fjórföldun á stuðningi við Guð­rúnu

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Fjöldi þeirra sem vilja sjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins í röðum landsmanna hefur fjórfaldast undanfarinn mánuð miðað við niðurstöður skoðanakannana Gallups. Farið úr 12% í janúar í 48% samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar fyrirtækisins sem birtar voru í gær. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem vilja sjá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur taka við flokknum farið úr 24% í 42% og nær þannig ekki tvöföldun.

Meðal þess sem vakið hefur athygli varðandi niðurstöður könnunar Gallups í febrúar er að Guðrún mælist með meiri stuðning í Reykjavík en Áslaug sem þó er þingmaður Reykvíkinga. Þannig segjast 52% þeirra styðja Guðrúnu, sem er þingmaður Suðurkjördæmis, en 40% Áslaugu. Mögulega þarf þetta ekki að koma á óvart í ljósi þess að Áslaug fór frá því að vera fyrsti þingmaður Reykjavíkur kjördæmis suður niður í þriðja sæti í kosningunum í lok nóvember.

Fleiri styðja Guðrúnu en Áslaugu bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni samkvæmt könnuninni í febrúar. Mögulega kemur það ekki heldur á óvart enda er Guðrún í raun ákveðin tenging þar á milli og sameiningarafl í þeim efnum eins og víðar. Þannig er hún af landsbyggðinni, frá Hveragerði, en er á sama tíma ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu og verið með annan fótinn þar í gegnum tíðina vegna starfa sinna. Hún þekkir fyrir vikið vel til í báðum tilfellum.

Miðað við könnunina hefur Guðrún meiri stuðnings á meðal kjósenda í fjórum af sex aldurshópum. Talsvert hefur verið gert úr því að Áslaug njóti meiri stuðnings á meðal yngri kjósenda en hins vegar dugir það vitanlega skammt ef það þýðir á móti minni stuðning á meðal flestra annarra aldurshópa. Eigi að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins þarf fleiri kjósendur en einungis þá sem yngri eru. Þvert á móti þarf að ná til sem flestra aldurshópa. Það gerir Guðrún Hafsteinsdóttir.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) og heldur úti vefnum Stjórnmálin.is.




Skoðun

Sjá meira


×