Innlent

Krist­rún og fleiri leið­togar mæta til  Kænugarðs

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Leiðtogarnir komu til Kænugarðs í lest í nótt og á myndinni má sjá Mette Frederikssen forsætisráðherra Dana, Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía, Kristrúnu Frostadóttur og norska forsætisráðherrann Jonas Gahr Störe. 
Leiðtogarnir komu til Kænugarðs í lest í nótt og á myndinni má sjá Mette Frederikssen forsætisráðherra Dana, Ulf Kristersson forsætisráðherra Svía, Kristrúnu Frostadóttur og norska forsætisráðherrann Jonas Gahr Störe.  NTB

Leiðtogar og háttsettir embættismenn frá tólf löndum komu saman í Kænugarði höfuðborg Úkraínu í morgun til að minnast þess að þrjú ár eru í dag liðin frá innrás Rússa inn í Úkraínu. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er þar á meðal. 

Heimsókninni er ætlað að undirstrika að þjóðirnar standi með Úkraínu í baráttu sinni við innrásarherinn. Á meðal þeirra sem mættu til Úkraínu í morgun voru Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, forsætisráðherrar nokkurra Norður-Evrópuríkja og Antonio Costa forseti leiðtogaráðs ESB.

Fulltrúar Bandaríkjanna voru þó hvergi sjáanlegir en verulegar blikur eru nú á lofti varðandi stuðning Bandaríkjanna við Úkraínu. 

Ummæli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og fleiri ráðamanna þar í landi undanfarið benda til þess að sá stuðningur sé mögulega úr sögunni enda kallaði Trump Volodómír Selenskí Úkraínuforseta óvinsælan einræðisherra á dögunum og virtist kenna honum um innrás Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×