Erlent

„Ferðamannaparadísin“ Gasa lík­lega rædd á fundi Rubio og krón­prinsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bandaríkjamenn hafa talað fyrir bættum samskiptum milli Ísraela og Sáda en síðarnefndu hafna alfarið hugmyndum Trump um brottflutning íbúa frá Gasa.
Bandaríkjamenn hafa talað fyrir bættum samskiptum milli Ísraela og Sáda en síðarnefndu hafna alfarið hugmyndum Trump um brottflutning íbúa frá Gasa. AP/Ariel Schalit

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er sagður munu eiga fund með Mohammed bin Salman, krónprinsi Sádi Arabíu, í dag eða síðar í vikunni. 

Samkvæmt Guardian hefur ekki verið rætt um það að formlegar viðræður muni eiga sér stað milli Rubio og ráðamanna Sádi Arabíu um hugmyndir Donald Trump Bandaríkjaforseta þess efnis að Arabaríkin, aðallega Egyptaland og Jórdanía, taki á móti tveimur milljónum Palestínumanna frá Gasa.

Þó verður að teljast líklegt að þær muni bera á góma en Sádar hafa hafnað tillögunni og fara fyrir nefnd sem er að smíða nokkurs konar móttillögu, sem felur í sér endurreisnarsjónð fjármagnaðan af ríkjunum við Persaflóa án aðkomu Hamas.

Mohammed bin Salman hefur sagt að Sádar muni ekki geta átt í eðlilegum diplómatískum samskiptum við Ísrael, sem Bandaríkjamenn hafa unnið að, án þess að vegurinn verði ruddur fyrir sjálfstæða Palestínu.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði í gær að Ísraelsmenn ynnu að því að með Bandaríkjamönnum að láta fyrirætlanir Trump ganga eftir. Þær miða að brottflutningi íbúa og uppbyggingu Gasa sem ferðamannaparadísar í eigu Bandaríkjanna, nú eða hans sjálfs hreinlega.

Sendinefnd frá Ísrael er væntanleg til Kaíró í dag þar sem þess verður freistað að ná saman um útfærslu næstu skrefa vopnahléssamkomulagsins við Hamas. Stjórnvöld í Ísrael eru sögð vilja fá sex eftirlifandi gísla í haldi Hamas afhenta næstu helgi.

Netayahu sagði í gær, eftir fund með Rubio, að Trump hefði heitið því að aðstoða Ísraelsmenn að „klára málið“ varðandi Íran. Hann og Rubio hefðu verið sammála um að Íranir mættu ekki eignast kjarnorkuvopn og að halda þyrfti aftur af þeim á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×