Fram vann leikinn 30-28 en þetta var þriðji deildarsigur liðsins í röð. Liðið er áfram tveimur stigum á eftir Haukum og átta stigum á eftir toppliði Vals.
Framliðið var framan af leik í basli á móti baráttuglöðum Garðbæingum sem gáfust aldrei upp.
Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði sjö mörk úr níu skotum fyrir Fram í kvöld og átti einnig fjórar stoðsendingar. Flottur leikur hjá henni. Alfa Brá Hagalín bætti við sex mörkum og þremur stoðsendingum.
Reynsluboltarnir Steinunn Björnsdóttir (5 mörk) og Þórey Rósa Stefánsdóttir (5 mörk) voru öflugar en sex af tíu mörkum þeirra komu úr hraðaupphlaupum.
Eva Björk Davíðsdóttir skoraði átta mörk fyrir Stjörnuna og Embla Steindórsdóttir var með sex mörk og fimm stoðsendingar fyrir Stjörnuna. Brynja Katrín Benediktsdóttir skoraði öll fimm mörk sín í fyrri hálfleiknum.
Framkonur byrjuðu vel og voru komnar í 10-6 og 11-7 um miðjan fyrri hálfleikinn. Stjörnuliðið endaði hálfleikinn mjög vel og leiddi í hálfleik, 16-15.
Framliðið sýndi styrk sinn í seinni hálfleiknum og náði góðu forskoti. Stjörnukonur gáfust aldrei upp og í lokin munaði bara tveimur mörkum.