Enski boltinn

Rodri í Meistaradeildarhópi Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rodri kyssir Gullknöttinn, Ballon d'Or, sem hann fékk á síðasta ári fyrir að vera besti fótboltamaður heims á árinu 2024.
Rodri kyssir Gullknöttinn, Ballon d'Or, sem hann fékk á síðasta ári fyrir að vera besti fótboltamaður heims á árinu 2024. Getty/James Gill

Manchester City vonast greinilega eftir því að geta notað spænska miðjumanninn Rodri á þessu tímabili.

Rodri er nefnilega í 25 manna leikmannahópi City fyrir úrslitakeppni Meistaradeildarinnar sem var tilkynntur inn til UEFA í gær.

Nýju mennirnir Omar Marmoush, Nico González og Abdukodir Khusanov eru einnig á listanum en það er ekkert pláss fyrir Vitor Reis sem kom frá brasilíska félaginu Palmeiras í janúar. ESPN segir frá.

City endaði í 22. sæti deildakeppni Meistaradeildarinnar sem þýddi tvo umspilsleiki við Real Madrid um sæti í sextán liða úrslitunum. Fyrri leikurinn er á Etihad leikvanginum á þriðjudaginn en sá síðari er á Bernabéu leikvanginum 19. febrúar.

Rodri mun örugglega ekki spila þessa tvo leiki en hann sleit krossband í leik á móti Arsenal í september.

City vonast til að komast sem lengst í keppninni og gæti nú mögulega nýtt sér þjónustu þessa frábæra miðjumanns þegar lengra er komið fram í keppnina.

Rodri hefur sjálfur talað um að stefna á það að vera með í heimsmeistarakeppni félagsliða í Bandaríkjunum í júní. Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, vill fara varlega með þennan mikilvæga leikmann og vill ekki að hann flýti sér of hratt til baka.

City mátti bara gera þrjár breytingar á leikmannahópi sínum fyrir framhaldið í Meistaradeildinni og það var því ekki eins og Rodri sé að halda Vitor Reis út úr hópnum. Guardiola mátti bara taka þrjá af nýju leikmönnunum fjórum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×