Enski boltinn

Guardiola þarf skilja einn nýju mannanna eftir út­undan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola þarf að taka stóra ákvörðun með leikmannahóp Manchester City.
Pep Guardiola þarf að taka stóra ákvörðun með leikmannahóp Manchester City. Getty/ Shaun Botterill

Manchester City keypti fjóra öfluga leikmenn í janúarglugganum en þeir fá ekki allir að vera hluti af Meistaradeildarhóp City á þessari leiktíð.

Manchester City mætir Real Madrid í umspili um sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Þetta verða tveir risastórir leikir.

Knattspyrnustjórinn Pep Guardiola þarf að tilkynna Meistaradeildarhópinn sinn fyrir útsláttarkeppnina fyrir hádegi á morgunn. ESPN segir frá.

Reglurnar eru hins vegar þær að hvert félag má bara gera þrjá breytingar á 25 manna hóp sínum um mitt tímabil. Liðið var að kaupa fjóra menn og einn þeirra verður því útundan.

City keypti framherjann Omar Marmoush, miðjumanninn Nico González og varnarmennina Abdukodir Khusanov og Vitor Reis. Samtals kostuðu þeir 210 milljónir evra eða næstum því 31 milljarð í íslenskum krónum.

Marmoush og Khusanov komu inn í byrjunarliðið í fyrsta leik og eru mjög líklega í 25 manna hópnum. Þetta gæti því verið val á milli þeirra Nico González og Vitor Reis. Guardiola sér samt leikinn öðrum augum en flestir og hver veit hvað hann gerir í þessari stöðu. 

City og Real Madrid mætast tvisvar sinnum, fyrst 11. febrúar og svo aftur 19. febrúar. Sigurvegarinn úr leikjunum tveimur mætir annað hvort Atlético Madrid eða Bayer Leverkusen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×