Óhætt er að segja að Norðmenn séu í sárum yfir gengi liðsins en bjartsýni ríkti í Noregi fyrir heimsmeistaramót, sér í lagi þar sem að norska landsliðið hefur leikið sína leiki í riðlakeppninni á heimavelli en HM fer þetta árið fram í Danmörku, Króatíu og Noregi.
Keppni í E-riðli lauk í gær. Norðmenn töpuðu opnunarleik sínum gegn Brasilíu, unnu Bandaríkjamenn í næsta leik en töpuðu í gær með þriggja marka mun gegn Portúgal. Þeir enda því í 3.sæti E-riðils og fara í milliriðil með ekkert stig og nær enga von um að komast upp úr honum í átta liða úrslit. Fjallað er um stöðuna í norskum miðlum í morgun.

Verdens Gang segir gengi liðsins á HM hreint og klárt fíaskó. Norska landsliðinu hafi verið slátrað á heimavelli og sérfræðingar miðilsins kalla eftir breytingum á þjálfarateymi liðsins, að þjálfarinn Jonas Wille verði látinn fara.
„Þetta er hans fjórða stórmót, jafnvel þó að liðið hafi átt sína spretti er mín tilfinning sú að við höfum aldrei verið eins langt frá okkar markmiðum. Það þarf að breyta einhverju. Það er þjálfarinn sem ber mestu ábyrgðina,“ segir Ole Erevik, sérfræðingur Viaplay um málið.
Og ekki er bara fjallað um málið í norskum miðlum. Slæmt gengi norska landsliðsins vekur athygli út fyrir norska landhelgi.
„Þetta er mikið sjokk fyrir norska karlalandsliðið. Að þeir skyldu ekki rísa undir nafni á heimavelli. Ég er í sjokki yfir þessu. Þeir geta ekki staðið sig þegar að það skiptir mestu máli og eru þess í stað aðhlátursefni fyrir framan sína eigin stuðningsmenn,“ skrifar Johnny Wojciech Kokborg, sérfræðingur danska miðilsins BT.

Og stórstjarna liðsins, Sander Sagosen, segir gengið til þessa mikil vonbrigði.
„Við höfðum sett okkur háleit markmið fyrir mótið og okkur hefur hlakkað til þess að taka þátt á þessu móti í nokkur ár.“
„Við ætluðum okkur að fara með fjögur stig í milliriðil, það var markmiðið. Núna er ég vonsvikinn og sorgmæddur…Ég hef verið á toppnum, en núna þarf ég að vera hér á botninum.“