Erlent

Sakar Rússa um skipu­lagningu hryðju­verka

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands.
Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands. EPA/PIOTR NOWAK

Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, sakaði í dag Rússa um að hafa skipulagt hryðjuverkaárásir gegn flugvélögum víðsvegar um heiminn. Rússar hafa verið sakaðir um að senda eldsprengjur með flugvélum.

„Ég get ekki farið út í smáatriði. Ég get eingöngu staðfest þann ótta að Rússar voru að skipuleggja hryðjuverkaárásir í háloftunum. Ekki eingöngu gegn Póllandi, heldur gegn flugfélögum víðsvegar um heiminn,“ sagði Tusk á blaðamannafundi með Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, í dag, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Tusk var líklega að tala um eldsprengjur sem Rússar hafa verið sakaðir um að reyna að senda með flugvélum til Bandaríkjanna og Kanada. Tvær slíkar sprengjur sprungu í sumar, önnur í Bretlandi og hinn í Þýskalandi, og þar að auki eru tvær sagðar hafa fundist í Póllandi.

Spjótin hafa beinst að leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) og hafa fregnir borist af því að helstur ráðgjafar Joes Biden, fráfarandi Bandaríkjaforseta, hafi lagt mikið kapp á að koma viðvörunum til Vladimírs Pútin, forseta Rússlands, um að þessar sprengjusendingar yrðu ekki liðnar.

Sjá einnig: Lögðu kapp á að senda Pútín viðvörun vegna eldsprengja

Undanfarna mánuði og jafnvel ár hafa rússneskir útsendarar verið sakaðir um fjölda skemmdarverka, íkveikja og morða, svo eitthvað sé nefnt, í Evrópu. Í einu tilfelli ætluðu rússneskir útsendarar sé að ráða forstjóra Rheinmetall, eins stærsta hergagnaframleiðanda Evrópu, af dögum.

Sjá einnig: Segir skemmdar­verk Rússa í Evrópu geta leitt til á­taka

Ráðamenn í Póllandi hafa meðal annars sakað Rússa um að bera ábyrgð á íkveikjuárásum og öðrum skemmdarverkum í Póllandi. Pólverjar létu Rússa loka einni af þremur ræðismannsskrifstofum þeirra í Póllandi í fyrra.


Tengdar fréttir

Gerðu umfangsmikla árás á vesturhluta Úkraínu

Rússar gerðu umfangsmikla dróna og eldflaugaárás á Úkraínu í nótt. Árásin beindist að mestu leyti að orkuinnviðum í vestanverðu landinu en Úkraínumenn segja að Rússar hafi notast við 43 eldflaugar af mismunandi gerðum og 74 Shahed sjálfsprengidróna við árásina.

Rýnt í stöðuna í Úkraínu: „Heimurinn er að breytast, hvað sem er getur gerst“

Væntanleg embættistaka Donalds Trump í Bandaríkjunum hefur enn áhrif á stríðið í Úkraínu en Trump hefur sagt að það gæti tekið sex mánuði að binda enda á átökin. Þá eru valdamiklir menn í Rússlandi sagðir óánægðir með það hvað dregið hefur úr stríðinu og þau slæmu áhrif sem það hefur haft á hagkerfi Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×