Innlent

Stjórn Virðingar mót­mælir ó­sönnum full­yrðingum í fjöl­miðlum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Valdimar Leó Friðriksson er framkvæmdastjóri Virðingar. Efling mótmælti í Kringlunni fyrr í dag.
Valdimar Leó Friðriksson er framkvæmdastjóri Virðingar. Efling mótmælti í Kringlunni fyrr í dag. Samsett

Stjórn Virðingar stéttarfélags mótmælir í yfirlýsingu ósönnum fullyrðingum sem félagið segir sett fram í fjölmiðlum um stofnun félagsins. Fjallað var um það fyrr í dag að lögregla hafi verið kölluð til í Kringlunni þegar forsvarsmenn stéttarfélagsins Eflingar stóðu að mótmælum við Finnsson Bistro í Kringlunni í hádeginu. Ástæða mótmælanna er tengsl staðarins við félagið Virðingu, sem Efling segir gervistéttarfélag.

„Virðing stéttarfélag er stofnað af starfsmönnum í veitingahúsum. Þeir félagsmenn Virðingar sem stofnuðu félagið höfðu það frelsi að mega stofna sitt eigið stéttarfélag. Stjórn Eflingar og formanni þess kemur það þess vegna ekkert við þó þetta fólk vilji frekar stofna sitt eigið stéttarfélag og vilji ekki vera í Eflingu. Þá hefur Efling heldur engan einkarétt á því að semja við vinnuveitendur eða fyrir hönd þeirra sem hjá þeim vinna,“ segir í yfirlýsingu frá Virðingu.

Þá segir í yfirlýsingunni að Efling hafi sýnt það í verki að þau vilji ekki semja við Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði, SVEIT.

„Sá kjarasamningur sem Virðing og veitingamenn hafa nú undirritað er gerður af fúsum og frjálsum vilja undir formerkjum félagafrelsis sem varið er af íslensku stjórnarskránni. Í sumum atriðum veitir hann betri kjör en kjarasamningur Eflingar í öðrum lakari,“ segir í yfirlýsingunni.

Þá frábiður stjórn Virðingar sér að vera bendluð við lögbrot og ítrekar að félagsmenn hafa og eiga rétt til að stofna sitt eigið stéttarfélag og gera þá samningar sem þeir eru tilbúnir að vinna eftir.


Tengdar fréttir

„Skiptir sannleikurinn engu máli?“

„Ef að Efling hefði eitthvað haldbært um það að samningurinn eða gerð hans væri ekki í samræmi við lög þá myndu þau ekki nota fjölmiðla til að reyna að hræða fólk frá honum heldur myndu þau einfaldlega fara löglegu leiðina og fá honum hnekkt fyrir dómi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×