Það var á blaðamannafundi á heimili Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, sem hann lét þau orð falla að hann gæti ekki útilokað að hervaldi verði beitt til að komast yfir landsvæði Grænlands.
Trump sagði að Bandaríkin þyrftu á Grænlandi að halda til að tryggja þjóðaröryggi. Það hafi hann fengið að heyra um langa hríð. Þá sagði hann að ef Danmörk myndi streitast á móti fyrirætlunum sínum myndi hann beita efnahagslegum þvingunum.
Hvernig sló það þig þegar þú heyrðir verðandi forseta Bandaríkjanna tala með þessum hætti?
„Þetta byrjaði allt þegar Trump var forseti, eða í fyrri ríkisstjórn hans. Hann talaði um að kaupa Grænland en viðbrögðin frá Danmörku og Grænlandi voru mjög skýr; Grænland væri ekki til sölu. Grænlendingar sögðust þó vera opnir fyrir því að ræða við vini og buðu upp á viðskiptasambönd en það væri aðeins Grænlendinga að stjórna,“ sagði Rachael Lorna Johnstone, prófessor í heimskautarétti við HA og háskólann á Grænlandi.
Hún hafi ekki tekið því af mikilli alvöru þegar Trump hafi sagst vilja kaupa Grænland en nú hafi orðið áherslubreyting á orðræðu Trumps.
„Ég hjó eftir því að hann talaði ekki um að kaupa Grænland heldur að Bandaríkin þurfi eignarhald og stjórn yfir Grænlandi, ekkert um kaup og ekkert um samband og samstarf.“
Áherslubreytingin lýtur ekki síst að því að útiloka ekki að beita hervaldi á Grænlandi.
„Þetta er risastórt mál og við eigum að taka þetta af alvöru. Grænland er í NATO en ekki í Evrópusambandinu en sem hluti af konungsríki Danmerkur eru mjög sterk tengsl við Evrópusambandið.“
Kosningaár er runnið upp á Grænlandi. „Það verða kosningar á Grænlandi eigi síðar en 6. apríl en Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar sagði í nýársávarpi sínu um framtíð Grænlands að það yrðu tekin stór skref í átt að sjálfstæði Grænlands.“