Upp­gjörið: Valur - Tinda­stóll 73-64 | Valskonur kældu Stólana niður

Siggeir Ævarsson skrifar
Valskonan Sara Líf Boama tekur frákast í leiknum á Hlíðarenda í kvöld.
Valskonan Sara Líf Boama tekur frákast í leiknum á Hlíðarenda í kvöld. Vísir/Anton Brink

Valskonur tóku á móti einu heitasta liði landsins í N1-höllinni í kvöld en nýliðar Tindastóls voru búnir að vinna fimm leiki í röð fyrir þennan. Það var þó ekki að sjá á leik liðsins að þessu sinni að hér væri á ferðinni sjóðheitt lið.

Ásta Júlía er mætt til leiks eftir meiðsliVísir/Anton Brink

Sóknarleikur beggja liða var stirður framan af leik en bæði lið voru að skjóta í kringum 30 prósent og klikka af mörgum opnum færum. Stólarnir voru ískaldir fyrir utan þriggjastiga línuna og settu aðeins niður einn þrist í 15 tilraunum í fyrri hálfleik en Valur leiddi í hálfleik 37-25.

Það lifnaði þó aðeins yfir þeim í seinni hálfleik en í hvert sinn sem þær gerðu sig líklegar til að jafna leikinn svöruðu Valskonur í sömu mynt. Það var ekki fyrr en í blálok þriðja leikhluta sem gestirnir sýndu sitt rétta andlit og minnkuðu muninn í fjögur stig, staðan 57-53 fyrir lokasprettinn.

Edyta Falenzcyk var stigahæst gestannaVísir/Anton Brink

Úr varð hörkuspennandi lokakafli en þar fóru gestirnir nokkrum sinnum illa að ráði sínu í sókninni og mokuðu sigrinum nánast upp í hendurnar á heimakonum.

Sanngjarn Valssigur niðurstaðan þar sem gestirnir voru einfaldlega alltof lengi í gang.

Atvik leiksins

Í stöðunni 59-56 henti Klara Sólveig boltanum beinustu leið út af. Það virtist setja tóninn sóknarlega þar sem mistök á mistök ofan komu hressilega í bakið á gestunum.

Stjörnur og skúrkar

Alyssa Cerino var stigahæst Valskvenna eins og gjarnan, skoraði 16 stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hún skaut boltanum að vísu afleitlega fyrir utan, setti niður einn þrist í ellefu tilraunum.

Alyssa fór fyrir sókninni hjá ValiVísir/Anton Brink

Hjá gestunum var Edyta Falenzcyk stigahæst með 17 stig og tók sex fráköst. Randi Brown var langt frá sínu besta í kvöld, setti tólf stig og fjögur af þeim undir lokin þegar leikurinn var búinn.

Randi Brown sækir á körfunaVísir/Anton Brink

Þriggjastiga nýting gestanna var skelfileg í kvöld. Fjórir þristar niður í 26 tilraunum. Hún var reyndar ekki mikið betri hjá heimakonum en skömminni skárri þó.

Hart tekist á

Það var ansi hart tekist á í kvöld eins og þessar myndir bera með sér.

Sönnunargagn AVísir/Anton Brink



Sönnunargagn BVísir/Anton Brink



Sönnunargagn CVísir/Anton Brink

Dómararnir

Jóhannes Páll Friðriksson, Birgir Örn Hjörvarsson og Aron Rúnarsson dæmdu leikinn í kvöld. Höfðu fín tök á leiknum, hentu út nokkrum tæknivillum þegar á þurfti að halda og héldu þessu öllu réttu megin við línuna. Israel Martín er þó mögulega ekki alveg sammála, en hann fékk eina af þessum tæknivillum undir lokin og var mjög ósáttur við samskiptaleysi dómaranna við hann.

Stemming og umgjörð

Stemmingin var ekki beinlínis í hæstu hæðum í N1 höllinni í kvöld en blaðamaður taldi 38 hausa í stúkunni rétt fyrir leik. Það rættist þó aðeins úr mætingunni en þessi leikur fer ekki í sögubækurnar fyrir neinar flugeldasýningar, hvorki í stúkunni né á vellinum.

Viðtöl

Jamil: „Fyrsti leikurinn okkar þar sem við vorum með fullskipað lið“

Jamil Abiad er þjálfari ValsVísir/Anton Brink



Jamil Abiad, þjálfari Vals, viðurkenndi að það hefði farið aðeins um hann þegar Tindastóll minnkaði muninn í eitt stig en hann var ánægður með hvernig hans leikmenn héldu sig við leikplanið og kláruðu leikinn.

„Engin spurning. Þær eru með gott lið og eru vel þjálfaðar. Við vissum að þær myndu gera áhlaup á einhverjum tímapunkti. Við erum alltaf að segja stelpunum að þegar lið gera áhlaup þá verðum við slökkva í því eins hratt og auðið er. Við gerðum það og komum svo sjálfar með áhlaup undir lokin. Það fór vissulega aðeins um mig en við héldum okkur við það sem lagt var upp með og úrslitin tala sínu máli.“

Jamil talaði um fyrir leik að reyna að hægja á Randi Brown og má segja að það leikplan hafi gengið fullkomlega eftir.

„Það gekk fullkomlega upp. Randi er að skora einhver 29 stig í leik, einhver besti sóknarmaðurinn í deildinni. Við héldum henni í tólf. Mér fannst við gera þetta frábærlega. Stelpurnar höfðu trú á planinu. Sara var frábær í vörn og allar höfðu trú og hjálpuðu hver annarri. Það er þetta sem þetta snýst um. Við erum að reyna að gera þetta í 40 mínútur samfleytt. Það er það sem við stefnum að.“

Anna Maria Kolyandrova spilaði sinn fyrsta leik fyrir Val í kvöld og Jamil var ánægður með hennar frammistöðu, þá sérstaklega í ljósi aðstæðna.

„Frábær. Hún er ekki búin að ná æfingu með liðinu ennþá. Að sjá hana koma inn á og gera það sem hún gerði var frábært. Hún kemur með hluti sem okkur vantar, sérstaklega í leikstjórnendastöðunni og við vorum mjög sátt með hennar innkomu.“

Anna Maria Kolyandrova lék sinn fyrsta leik fyrir Val í kvöld og skoraði átta stig. Hér reynir hún sniðskot á hnjánum eftir að hafa hrasaðVísir/Anton Brink

Ásta Júlía Grímsdóttir er að koma til baka eftir meiðsli og Jamil tók undir að þar væri mikilvægt púsl að koma aftur inn í myndina, en Valskonur hafa verið að glíma við töluverð meiðsli og forföll í vetur.

„Engin spurning. Fyrir utan hvað hún er mikill leiðtogi þá hjálpar hún okkur mikið í fráköstum sem skiptir okkur miklu máli, að lið fái ekki annan séns í sókninni á móti okkur. Þetta er fyrsti leikurinn okkar þar sem við vorum með fullskipað lið og það er góð tilfinning. Það mun taka smá stund fyrir alla að komast í takt. En að hafa alla klára loksins hjálpar okkur mikið í leikjum. Ánægður með að vera kominn með allar til baka.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira