Körfubolti

Sjö­tíu daga bið lengist enn eftir frá­bæra endur­komu Hamars/Þórs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Abby Claire Beeman var nálægt þrennunni í kvöld en hún fór fyrir sínu liði í lokin.
Abby Claire Beeman var nálægt þrennunni í kvöld en hún fór fyrir sínu liði í lokin. Vísir/Anton Brink

Hamar/Þór sótti tvö stig í Smárann í kvöld í Bónus deild kvenna í körfubolta eftir frábæran endurkomusigur á Grindavík, 80-76.

Abby Claire Beeman átti enn einn stórleikinn hjá Hamri/Þór en hún endaði í kvöld með 35 stig, 11 fráköst, 8 stoðsendingar og 4 stolna bolta.

Grindavíkurkonur voru yfir nær allan leikinn, náðu mest sextán stiga forskoti og voru með tíu stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 63-53.

Í lokaleikhlutanum áttu þær hins vegar fá svör og leikur liðsins hrundi. Hamar/Þór vann upp forskotið og hafði síðan betur á spennandi lokamínútum. Stelpurnar af Suðurlandinu unnu fjórða leikhlutann 27-13.

Grindavíkurliðið hefur nú tapað átta leikjum í röð og situr í botnsæti deildarinnar.

Hamar/Þór var að vinna sinn fimmta leik á leiktíðinni en þetta var annar sigurleikur liðsins í röð.

Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir skoraði fimmtán stig fyrir Hamar/Þór en hún er mikill happafengur fyrir liðið.

Grindavíkurliðið vann síðasta leik í deildinni fyrir sjötíu dögum eða þegar liðið vann Íslandsmeistara Keflavíkur 29. október á síðasta ári.

Sofie Tryggedsson skoraði 18 stig auk þess að gefa 10 stoðsendingar og Hulda Björk Ólafsdóttir var með 17 stig af bekknum. Isabella Ósk Sigurðardóttir var síðan með 15 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×