Körfubolti

Tinda­stóll upp fyrir Njarð­vík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stólarnir unnu góðan sigur í kvöld.
Stólarnir unnu góðan sigur í kvöld. Vísir/Jón Gautur

Tindastóll lagði Njarðvík í Bónus deild kvenna í körfubolta í kvöld og fór þar með upp fyrir þær grænklæddu í töflunni.

Það mátti búast við jöfnum leik þar sem Tindastóll var aðeins einum sigri á eftir Njarðvík fyrir leik kvöldsins. Bæði lið eru í harðri baráttu við Þór Akureyri um annað sætið ásamt Keflavík á meðan Haukar eru nokkuð þægilegar á toppi deildarinnar.

Stólarnir byrjuðu af krafti og leiddu með níu stigum eftir fyrsta leikhluta. Gestirnir svöruðu en sóknarleikur Tindastóls var ekki upp á marga fiska í öðrum eða þriðja leikhluta. Heimamenn leiddu með einu stigi fyrir fjórða leikhluta en þá var bensínið búið hjá gestunum og vann Tindastóll á endanum sjö stiga sigur, lokatölur 76-69.

Randi Keonsha Brown var stigahæst í liði Tindastóls með 29 stig. Hún tók einnig 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Oumoul Khairy Sarr Coulibaly kom þar á eftir með 16 stig, 10 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Í liði gestanna voru þær Sara Björk Logadóttir, Ena Viso og Brittany Dinkins stigahæstar með 14 stig.

Stöðuna í deildinni má sjá á vef KKÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×