Fótbolti

Valdi Ís­land ekki Dan­mörku: „Snerist um hvað mig langaði mest að gera“

Aron Guðmundsson skrifar
Emilía segir það lúxusvandamál að hafa þurft að velja á milli þess að vera gjaldgeng í íslenska eða danska landsliðið í fótbolta. Ákvörðunin var henni erfið en á endanum valdi hún Ísland.
Emilía segir það lúxusvandamál að hafa þurft að velja á milli þess að vera gjaldgeng í íslenska eða danska landsliðið í fótbolta. Ákvörðunin var henni erfið en á endanum valdi hún Ísland. Vísir/Einar

Emilía Kiær Ás­geirs­dóttur segir það hafa verið lúxus­vanda­mál að þurfa að velja á milli ís­lenska og danska lands­liðsins í fót­bolta. Á endanum valdi hún Ís­land og dreymir um að komast á stór­mót með liðinu í sumar. 

Emilía samdi við þýska stór­liðið RB Leipzig fyrir áramót. Full­kominn enda­punktur á frábæru ári þar sem að hún tok meðal annars stóra ákvörðun, kaus að leika fyrir ís­lenska lands­liðið, ekki það danska.

„Ég held ég hafi farið í gegnum allt þegar að ég var að vega og meta hvað ég vildi gera. Í lokin snerist þetta þó bara um það hvað mig langaði mest til að gera. Báðir staðir eru góðir fyrir fót­bolta­mann að fá lands­leiki og það að fá lands­leiki er í sjálfu sér bara stór heiður. Þetta var smá lúxus­vanda­mál fyrir mig að hafa því það er æðis­legur hluti af fót­boltanum að geta verið í lands­­ og spila fyrir þjóð sína.

Bæði knatt­spyrnu­sam­böndin vissu af því að ég vildi taka þessa ákvörðun núna eða væri hið minnsta að hugsa um það. Þá náttúru­lega talar maður við báða aðila, heyrir í þeim en allt á góðu nótunum.“

Faðir Emilíu er ís­lenskur, móðir hennar dönsk og í Dan­mörku hefur hún að mestu hlotið fót­bolta­legt upp­eldi og meðal annars spilað fyrir yngri lands­lið Dan­merkur.

Þau voru ekkert að setja pressu á þig með því að reyna toga þig í aðra hvora áttina?

„Nei ekki þannig. Það væri fyndið ef það hefði verið þannig en nei ég á fjöl­skyldu sem styður mig ótrú­lega mikið í því sem að ég geri og því sem að mig finnst skemmti­legt, sem er fót­boltinn. Það var bara æðis­legt að finna fyrir stuðningi þeirra beggja og traustinu að leyfa mig að taka þessa ákvörðun. Ég veit að þetta var mín ákvörðun og þetta var þægi­legt ferli þrátt fyrir að það hafi einnig verið mjög erfitt.“

Emilía kom við sögu í nokkrum landsleikjum með A-landsliði Íslands á síðasta ári. Hér er hún í baráttunni gegn Ólympíumeisturum Bandaríkjanna.Vísir/Getty

En bæði danskan og ís­lenskan eru í hávegum hafðar á heimili fjöl­skyldunnar úti í Dan­mörku.

„Þetta er klár­lega öðru­vísi en á hefðbundnum heimilum og ef maður myndi taka gesti heim til sín sem þekktu ekki aðstæðurnar hjá okkur þá yrðu þau smá rugluð því við skiptum á milli ís­lenskunnar og dönskunnar mjög náttúru­lega í setningum. Þetta væri því ábyggi­lega smá skrítið og flókið fyrir aðra en fún­kerar fyrir okkur.“

Fyrstu lands­leikir Emilíu fyrir Ís­lands hönd komu á síðasta ári og hún er þakk­lát leik­mönnum liðsins fyrir að hafa tekið vel á móti sér. Fram undan er stórt ár hjá ís­lenska lands­liðinu, há­punkturinn óneitan­lega EM í sumar. Þar vill Emilía vera og telur skref sitt til Leipzig hjálpa.

Emilía í treyju RB Leipzig.Mynd: RB Leipzig

„Já væntan­lega. Ég er að taka þetta skref því ég vil bæta mig sem leik­maður. Ef að ég get gert það þá eykur það líkurnar mínar á að komast á EM sem er stórt mark­mið. Það að fara á stór­mót, og það yrði þá fyrsta stór­mótið mitt, er klikkað að hugsa út í. En vonandi líka að með því að bæta mig sem leik­maður get ég líka hjálpað liðinu meira. Þá getum við sem lið náð lengra sem er mark­mið okkar allra. Það er þess vegna sem við mætum í lands­liðið frá mis­munandi stöðum.“

Mögu­leiki á að ná EM sæti sem væri draumur að rætast fyrir Emilíu.

„Maður hefur alltaf verið í stofunni heima og horft á stór­mótin. Alla leikina hjá bæði Dan­mörku og Ís­landi sem og úr­slita­leikina. Það er klikkað að hugsa út í að maður gæti sjálfur verið þar. Þetta er þó það sem maður hugsar út í.“

En með tenginguna við Ís­land og Dan­mörku í huga. Með hvorri þjóðinni myndi Emilía halda ef þær myndu mætast á vellinum í hvaða íþrótt sem er?

„Klár­lega fylgir því blönduð til­finning því maður hefur tengingu við bæði löndin. Maður þekkir leik­menn beggja landa. Ég fylgist með áfram með danska lands­liðinu jafn­vel og ég gerði áður en ég kaus að velja ís­lenska lands­liðið. Ég spila fyrir ís­lenska lands­liðið núna og ef ég er að horfa á leik vil ég náttúru­lega að ís­lensku þjóðinni gangi sem best.“


Tengdar fréttir

„Það er betra að sakna á þennan hátt“

Eftir að hafa slegið í gegn í Dan­mörku, orðið marka­drottning og unnið titla, tekur ís­lenska lands­liðs­konan í fót­bolta. Emilía Kiær Ás­geirs­dóttir nú næsta skref á sínum ferli. Hún hefur samið við þýska liðið RB Leipzig. Hún telur þetta rétta tíma­punktinn á sínum ferli til að opna næsta kafla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×