Körfubolti

Körfu­bolta­kvöld: Geta Tindastól­stelpurnar orðið Ís­lands­meistarar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Randi Brown hefur farið á kostum með Stólaliðinu í vetur en hún er með 26,8 stig og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Randi Brown hefur farið á kostum með Stólaliðinu í vetur en hún er með 26,8 stig og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik. Vísir/Diego

Íslenskt körfuboltaáhugafólk kannast flest vel við það að sjá karlalið Tindastóls berjast um Íslandsmeistaratitilinn í körfunni en nú eru konurnar í félaginu einnig að gera sig líklegar.

Tindastólsliðið hefur unnið fimm leiki í röð í Bónus deild kvenna í körfubolta og er komið upp í annað til fjórða sæti deildarinnar.

Bónus Körfuboltakvöld ræddi þetta frábæra gengi Stólanna að undanförnu og veltu sérfræðingarnir því fyrir sér hvort Tindastóll gæti hreinlega orðið Íslandsmeistari kvenna í vor.

„Við höfum rætt mikið þetta Stólalið síðustu vikurnar. Þær eru búnar að vinna fimm leiki í röð. Þær eru á svakalegu skriði,“ sagði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Bónus Körfuboltakvölds kvenna.

„Er þetta lið sem gæti gert atlögu að titlinum,“ spurði Hörður sérfræðinga sina.

„Já, ég er ógeðslega hrifin af þessu liði. Israel Martin er búinn að gera ótrúlega vel. Hann er búinn setja saman ótrúlega gott lið og það er mikið sjálfstraust í þessu liði,“ sagði Hallveig Jónsdóttir, sérfræðingur í Bónus Körfuboltakvöldi kvenna.

„Ég sé þær kannski ekki alveg fara alla leið en ég myndi ekki missa hökuna í gólfið ef Tindastóll yrði í úrslitaseríunni,“ sagði Hallveig.

„Þetta er eins og Njarðvík. Þú ert með þrjá frábæra erlenda leikmenn og svo ertu með heimastelpur sem stíga upp á réttum augnablikum. Það gæti alveg gerst,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, sérfræðingur í Bónus Körfuboltakvöldi kvenna.

Hér fyrir neðan má sjá alla umræðuna um möguleika kvennaliðs Tindastóls að verða Íslandsmeistari kvenna í vor.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld kvenna: Umræða um titilvonir Tindastóls



Fleiri fréttir

Sjá meira


×