Viggó hefur verið keyptur frá Leipzig, sem er um miðja deild í Þýskalandi, til fallbaráttuliðs Erlangen. Íslendingurinn hefur verið lykilmaður hjá Leipzig síðan árið 2022, raðað inn mörkum og komu þessi félagsskipti mörgum spánskt fyrir sjónir.
„Út á við lítur þetta kannski skringilega út. Í fyrsta lagi er þetta lið sem að á ekki að vera svona neðarlega í töflunni. Þetta er lið sem á að vera miklu ofar. Þeir komu bara með tilboð til Leipzig í byrjun desember, forráðamenn liðanna ræddu sín á milli og komust að samkomulagi. Í framhaldinu næ ég síðan að semja við Erlangen. Þeir eru í erfiðri stöðu og urðu að gera eitthvað. Þeir gerðu mikið til þess að ná mér. Ég get skilið að þetta komi mörgum spánskt fyrir sjónir en mér finnst þetta spennandi og hlakka til.“
Viggó fær betri samning hjá Erlangen
„Enda væri maður ekki að fara til liðs sem á pappír er verra lið og rífa fjölskylduna upp með sér með flutningum og öllu sem því fylgir nema þetta passaði allt saman. Launakröfur er einn hluti af því.“
Svæsin flensa kom hins vegar í veg fyrir að Viggó gæti kvatt Leipzig almennilega. Ekki er vitað hvað var að hrjá skyttuna en hann er allur að koma til.
„Það var leiðinlegt að fá ekki að kveðja liðsfélagana og áhorfendur. Slútta þessu almennilega. En það er ekki hægt að breyta því, svekkjandi en ég kem þarna einhvern tímann aftur og hirði tvö stig af þeim, kveð þá þannig.“